Frétt

Landsvirkjun hlýtur Starfsmenntaverðlaunin 2005

7. nóvember 2005

Auk Landsvirkjunar hlutu stéttarfélagið Efling og Ingibjörg Hafstað verðlaunin.

Það er Mennt, samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla sem veitir Starfsmenntaverðlaunin og fór verðlaunaafhendingin fram síðastliðinn föstudag. Markmið Starfsmenntaverðlaunanna er að styðja við nýsköpun og framþróun starfsmenntunar á Íslandi ásamt því að vekja athygli á málefninu. Verðlaunin eru verðlaunahöfum hvatning til áframhaldandi starfa og öðrum til fyrirmyndar á sviði starfsmenntamála. Starfsmenntaverðlaunin eru veitt í þremur flokkum; flokki fræðsluaðila, flokki fyrirtækja og flokki einstaklinga.

Í vinnustaðargreiningum hjá Landsvirkjun hefur komið fram að starfsfólk telur sig hafa tækifæri til að læra og þróast í starfi. Kröfur til færni starfsfólks eru greindar og starfsfólk metur hvernig það uppfyllir þessar kröfur. Sett er upp fræðsluáætlun fyrir starfsmenn og tekur hún á því sem betur má fara. Um leið og starfsmenn eru þjálfaðir upp í þeim störfum sem þeir eiga að sinna hefur Landsvirkjun ríkan skilning á því að lífið er ekki bara vinna og er öll fræðsla af því góða. Landsvirkjun kemur með ýmsum hætti til móts við starfsmenn sem stunda nám með vinnu. Einnig geta starfsmenn fengið 2 mánaða frí til endurmenntunar eftir 4 ára samfellt starf.

Verðlaunagripurinn er unninn út frá merki Starfsmenntaverðlaunanna. Listamaðurinn Jón Haukur Edwald gerði verðlaunagripinn, en hann er steyptur í brons og stendur á íslenskum blágrýtissteini.

Starfsmennaverðlaunin 2005
Forseti Íslands, Herra Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt handhöfum
starfsmenntaverðlaunanna. Frá vinstri: Ingibjörg Hafstað, Sigurður
Bessason, formaður Eflingar og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar.

Viðhengi:
Auglýsing Landsvirkjunar í tilefni verðlaunanna


Fréttasafn Prenta