Frétt

Tvö listaverk vígð við Vatnsfellsstöð

4. júlí 2005

Verkið Tíðni er manngeng hljóðpípa sem gefur hljóð á 50 riðum, en það er sama tíðni rafmagnsins sem kemur frá stöðinni.

Listaverkið Tíðni við VatnsfellsstöðÍ verkinu Tíðni sjáum við sjálfar höfuðskepnurnar að leik. Hér er unnið með vatnið, jörðina, loftið og eldinn svo úr verður samtal milli tóns og rafstraums; tveggja af ósýnilegu börnum náttúrunnar. Þegar norðanvindurinn blæs og leikur um hljóðpípuna myndast djúpur tónn sem á máli vísindanna hefur sveiflutíðnina 50 rið. Á sama augnabliki flæðir vatnið um virkjunina svo úr verður rafstraumur. Og þá verður samtalið einmitt til - því sveiflutíðni hans er einnig 50 rið. Undrið gerist: Hjörtu tóns og rafstraums slá í sama takti.

Verk Gjörningaklúbbsins, Móðir jörð, er gróðurreitur sem hefur verið útbúinn við stöðina. Gjörningaklúbbinn skipa þær Eyrún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir.

Listaverkið Móðir jörð við VatnsfellsstöðMóðir Jörð tekur þátt í ævintýrum tæknivæðingarinnar, jafnt með skapandi sem eyðandi mætti sínum. Hún hýsir ljósleiðara og rafmagnsstaura jafnt sem menn og lífríki. En hún getur fyrirvaralaust slitið sambandinu með krafti sínum. Það er til lítils að rökræða við náttúruna. Í október 2003 voru gróðurtorfur úr Þóristungum, sem eru á svæði fyrirhugaðs Sporðöldulóns, fluttar á hinn gróðursnauða tanga við Vatnsfellsstöð í samvinnu við Landgræðslu ríkisins. Virkjunin sér gróðurreitnum fyrir skjóli auk rafmagns sem lýsir upp útlínur hans þegar skyggja fer. Þegar við notum rafmagn þrýstum við á „play“ takkann á móður jörð án þess að velta endilega fyrir okkur samhengi hlutanna.

Í rökkrinu fær verkið allt annað yfirbragð. Meðfylgjandi mynd er tekin kl. 01:34 miðvikudaginn 20. júlí 2005.
Skoða myndina >>

Fréttasafn Prenta