Frétt

Samningar við landeigendur Reykjahlíðar í Mývatnssveit

7. nóvember 2005

Samningarnir eru fjölþættir og fela það meðal annars í sér að Landvirkjun kaupir fasteignir og lausafé Kísiliðjunnar heitinnar í Bjarnarflagi í Mývatnssveit ásamt því landi sem byggingarnar standa á. Flatarmál bygginganna er rúmir 4 þúsund fermetrar; skemma, verkstæði og skrifstofuhúsnæði en búið er að rífa þau mannvirki á lóðinni sem tengdust kísilgúrvinnslunni og ekki nýttust í annað.

Jafnframt kaupunum fær Landsvirkjun einkarétt til rannsókna og nýtingar á jarðhita á Sandabotnasvæði og í Gjástykki en fyrir hefur Landsvirkjun sams konar réttindi í Bjarnarflagi og á Kröflusvæðinu. Einnig var gengið frá öðrum málum milli Landsvirkjunar og landeigenda sem til skoðunar hafa verið á undanförnum misserum. Landeigendur og Landsvirkjun horfa nú til sameiginlegra hagsmuna sem felast í rannsóknum á jarðhita í landi Reykjahlíðar og nýtingar hans í framhaldinu ef samningar nást við kaupanda að orkunni.

Nýgerðir samningar eru afar mikilvægir fyrir framtíðarstarfsemi Landsvirkjunar á Norðausturlandi en með nýlegum kaupum á hlut í Þeistareykjum ehf. hefur Landsvirkjun nú, ein eða í samstarfi við aðra, forræði yfir nægjanlegum orkulindum á Norðausturlandi til að fullnægja þörfum í orkufrekum iðnaði sem áhugi er á að koma á fót á Norðurlandi.

Samningur undirritaður við landeigendur Reykjahlíðar
Frá undirritun samningsins við Landeigendur Reykjahlíðar ehf. Á myndinni eru
frá vinstri: Jónas A. Aðalsteinsson, lögfræðingur Landeigenda Reykjahlíðar ehf,
Ólafur H. Jónsson, formaður stjórnar Landeigenda Reykjahlíðar ehf., Friðrik
Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Bjarni Bjarnason, framkvæmdastjóri
orkusviðs Landsvirkjunar

Fréttasafn Prenta