Frétt

Ráðinn stöðvarstjóri Kárahnjúkavirkjunar

21. nóvember 2005
Georg Þór Pálsson
 Georg Þór Pálsson

Georg vinnur nú sem aðstoðarstöðvarstjóri á Þjórsársvæði en hefur starfað hjá Landsvirkjun undanfarin fjögur ár. Á árunum 1994-1997 vann hann einnig hjá Landsvirkjun í Blöndustöð. Gert er ráð fyrir að Georg hefji störf fyrir austan í lok ágústmánaðar á næsta ári. Georg er stúdent af eðlisfræðibraut frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og lauk rafmagnstæknifræðiprófi frá sterkstraumsdeild Tækniskólans í Óðinsvéum í Danmörku árið 1990.

Eftir að námi lauk starfaði hann hjá rafverktökum og á verkfræðistofum. Í þessum störfum kom hann að hinum ýmsu verkþáttum við byggingu virkjana bæði á framkvæmdastigi sem og á hönnunarstigi. „Árið 1994 hóf ég störf við Blönduvirkjun, en það var síðan með trega sem Blönduós var kvaddur haustið 1997 en þá hafði konan hafið nám við kennaraháskólann og ég búinn að sökkva mér í verkefni við endurgerð flugskýlis NATO uppá Keflavíkurflugvelli. Það var svo fyrir fjórum árum að ég sneri aftur til starfa hjá Landsvirkjun og hef núna verið í fjögur ár aðstoðarstöðvarstjóri við aflstöðvar í Þjórsá og Tungnaá“ segir Georg.

Aðspurður um hvernig stöðvarstjórahlutverkið í stærstu aflstöð landsins legðist í hann sagði Georg: „Verkefnið sem er framundan er bæði ögrandi og spennandi en fyrst um sinn mun ég byrja á því að kynna mér það svona úr fjarlægð, enda mun ég ekki láta af störfum hér á Þjórsársvæði fyrr en vel er liðið á næsta ár. Ég reikna þó með því að þegar nær dregur muni hugurinn fara að leita austur og farið verði að setja niður á blað helstu verkþætti og skipuleggja vinnu við undirbúning þess að taka virkjunina í rekstur.

Þetta er skemmtilegt verkefni. Það að hefja rekstur og framleiðslu á rafmagni í virkjun á vegum Landsvirkjunar hefur svo sem verið gert áður, en það sem er að nokkru leyti frábrugðið nú er það að orkusvið Landsvirkjunar er vottað samkvæmt gæðastaðli ISO 9001 og unnið er að vottun samkvæmt ISO 14001 sem er umhverfisvottun og verður að öllum líkindum orðin að veruleika þegar virkjunin verður ræst. Þetta mun gera það að verkum að í undirbúningsfasa rekstrar er að mörgu að hyggja, því staðlarnir gera þá kröfu til okkar að við séum komnir með í fastan farveg ýmsa þá hluti sem annars hefðu kannski beðið betri tíma. Ég tel einnig að vottunin muni hjálpa okkur á þann hátt að við aðlögumst fyrr samfélaginu og samfélagið okkur og við gerum viðskiptavininn okkar ánægðan frá fyrsta degi.“

Georg Þór Pálsson er fæddur og uppalinn á Reyðarfirði, maki hans er Hjördís Hrund Ingvadóttir, leikskólakennari og eiga þau þrjá drengi, Ingva Þór, Pál Halldór og Gunnþór Elís en þeir eru fimmtán, þrettán og þriggja ára.  Fjölskyldan áætlar að flytja austur í lok næsta sumars og leggst það æði vel í fjölskyldumeðlimi. „Þó verður það að sjálfsögðu verkefni útaf fyrir sig fyrir okkur að aðlagast á nýjum stað,“ segir Georg, „þótt ég líti nú á þetta eins og við séum að flytja heim þrátt fyrir að komin séu hartnær tuttugu ár síðan menntaskólaárunum lauk. Foreldrar og tengdaforeldrar búa ennþá fyrir austan og fá því kærkomið tækifæri til að sjá barnabörnin oftar, enda er stutt frá Egilsstöðum niður á Reyðarfjörð og Seyðisfjörð.“

Fréttasafn Prenta