Frétt

Viðgerðir á tveimur bilunum í Búrfellsstöð standa yfir

6. desember 2005

Eins og greint hefur verið frá hér á vefnum hefur aflvél 4 í Búrfelli verið biluð frá því 12. nóvember sl. Búið er að meta endanlegt umfang viðgerðar sem þarf að fara fram á rafala vélarinnar og stendur hún nú yfir. Tímaáætlun fyrir viðgerðina er óbreytt og gert er ráð fyrir því að vélin komist í rekstur aftur í janúar nk. Aflvél 2 í Búrfellsstöð, sem talin var þurfa bráðaviðgerð, hefur einnig verið stöðvuð og verður lagfærð nú í desember. Á næstu tveimur vikum a.m.k. verða því einungis fjórar aflvélar af sex í rekstri í Búrfelli.

Verið er að lagfæra tengingu inn á 220 kV hlið vélaspennis 2 í Búrfellsstöð, sem bilaði 27. nóvember sl. Viðgerðin fer fram á vegum Landsvirkjunar, þar sem búnaðurinn er í eigu hennar, en Landsnet mun sjá um viðgerðina á spenninum sem verktaki. Gert er ráð fyrir því nú að spennirinn verði kominn í rekstur í byrjun næstu viku.

Aflgeta í virkjunum Landsvirkjunar hefur, frá því bilanirnar urðu, reynst nægileg til að anna álagi samkvæmt skuldbindingum fyrirtækisins, en ljóst er að ekkert má út af bregða. Áfram er gert ráð fyrir að Landsvirkjun geti afhent viðskiptavinum sínum allt umsamið rafmagn meðan á þessum viðgerðum stendur og verða þeir upplýstir um framvinduna eftir því sem ástæða þykir til.

Fréttasafn Prenta