Frétt

Landsvirkjun skrifar undir lán

9. desember 2005

Í London var í dag skrifað undir sambankalán Landsvirkjunar á alþjóðlegum bankamarkaði. Lánið er veltilán til 7 ára að fjárhæð 400 milljónir Bandaríkjadala sem þýðir að Landsvirkjun getur dregið á lánið og endurgreitt eftir þörfum. Með lántökunni er Landsvirkjun að endurfjármagna sams konar lán sem tekið var með óhagstæðari kjörum 2003.

Um lántökuna sáu Barclays Capital, Citicorp, Landsbanki Íslands, SEB, Société Générale og Sumitomo en auk þeirra tóku 10 bankar þátt í láninu, þ.m.t. Íslandsbanki og KB Banki. Kjörin voru afar góð og greiðir Landsvirkjun 0,0425% skuldbindingargjald og 0,045% til viðbótar ef lánið er notað. Þetta eru lítið eitt hærri lánskjör en Ríkissjóði standa til boða á sambærilegu láni, en kjör Ríkissjóðs eru á hverjum tíma leiðbeinandi fyrir þau kjör sem öðrum íslenskum lántakendum bjóðast.

Tilboð bárust um lán að fjárhæð 570 millj. Bandaríkjadala frá bönkunum og er það til marks um það traust sem Landsvirkjun og ríkið njóta á alþjóðamarkaði um þessar mundir. Friðrik Sophusson forstjóri skrifaði undir lánið fyrir hönd Landsvirkjunar.

Fréttasafn Prenta