Frétt

Umferðarátak í Hallormsstaðarskógi

15. desember 2005

Frumkvæðið kom frá foreldrum skólabarna sem höfðu samband við Landsvirkjun.  Í kjölfarið var komið á samstarfshópi um átak í umferðarmálum.

Mikill umferðarþungi er í gegnum Hallormsstaðarskóg vegna Kárahnjúkaframkvæmd­anna en á Hallormsstað eru íbúðabyggð og skólar auk fjölda ferðamanna yfir sumartímann.  Skelfileg slys hafa orðið á vegarkaflanum í gegnum Hallormsstaðarskóg og við viljum ekki að þau verði fleiri.

Samstarfshópurinn sendi forsvarsmönnum þeirra fyrirtækja sem stunda akstur vegna Kárahnjúkavirkjunar í gegnum Hallormsstaðarskóg bréf þar sem forráðamenn voru hvattir til að benda bílstjórum sínum á hætturnar á þessum kafla og skora á þá að gæta öryggis í akstri.  Landsvirkjun bauð þeim bílstjórum sem það vildu þiggja vandaðar derhúfur sem á stendur “Hægan nú!” til þess að örva varkárni í umferðinni.  Viðbrögðin létu ekki á sér standa og er ljóst að bílstjórar og flutningafyrirtæki vilja allt gera til að stuðla að sem mestu öryggi og bættri umferðarmenningu á Austurlandi.

Þá hefur Landsvirkjun gefið börnum við Hallormsstaðaskóla endurskinsborða eins og raunar börnum í skólum alls staðar í nágrenni við virkjanir fyrirtækisins víðs vegar um land.

Vegagerðin hefur aukið hraðatakmarkanir, gert göngustíg á svæðinu svo að gangandi vegfarendur þurfi ekki að vera í vegkantinum og hún undirbýr bættar merkingar.  Lög­reglan hefur fylgst með þessu framtaki og leggur áherslu á umferðarfræðslu í skólanum.

Við vonumst til að með sameiginlegu átaki megi bæta umferðarmenninguna almennt og tryggja öryggi allra í umferðinni, sérstaklega á þessu viðkvæma svæði.

Fréttasafn Prenta