Frétt

Samkeppni á raforkumarkaði

5. janúar 2006

Frá árinu 2003 hefur sala rafmagns á íslenskum raforkumarkaði verið gefin frjáls í áföngum. Um síðustu áramót urðu þau tímamót á raforkumarkaði að öllum raforkunotendum varð frjálst að velja sér raforkusala í samræmi við raforkulög. Um þessar mundir eru sjö sölufyrirtæki sem annast smásölu til heimila og fyrirtækja en þau eru: RARIK, Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða, Norðurorka, Rafveita Reyðarfjarðar og Orkuveita Húsavíkur.

Við þessi tímamót eru sjálfsagt ýmsir sem velta fyrir sér þeim möguleikum sem felast í þessum breytingum og hvað þær hafa í för með sér. Sú opnun á raforkumarkaði sem nú á sér stað snýr fyrst og fremst að smásölu með rafmagn. Um nokkurt skeið hefur verið við lýði frelsi í framleiðslu á rafmagni og sölu á heildsölumarkaði. Landsvirkjun framleiðir og selur raforku í heildsölu til sölufyrirtækja og er jafnframt eini stóri framleiðandinn á rafmagni, sem stundar ekki smásölu til minni raforkunotenda. Þá er Landsvirkjun eini framleiðandinn á rafmagni, sem birt hefur heildsöluverð á rafmagni og býður viðskiptavinum sínum til sölu rafmagn til lengri tíma með miklum sveigjanleika í afhendingu rafmagnsins. 

Landsvirkjun er sem framleiðandi á rafmagni reiðubúin til viðræðna um sölu rafmagns við þá aðila sem fyrirhuga stofnun sölufyrirtækis. Í því sambandi er vakin athygli á að frá og með 1. janúar 2006 eru lágmarkskaup sölufyrirtækis af Landsvirkjun aðeins 1 GWst á ári, en það jafngildir meðalnotkun um 200 heimila. Landsvirkjun býður ýmsar tegundir samninga vegna kaupa á rafmagni í heildsölu og innkaupaleiðir eru margvíslegar. Allar nánari upplýsingar um söluvörur fyrirtækisins veitir markaðsdeild Landsvirkjunar í síma 515 9000. Eins er unnt að senda fyrirspurnir á raforkupantanir hjá lv.is

 

Fréttasafn Prenta