Frétt

Erfið staða í fiskeldi ekki af völdum hás raforkuverðs

23. janúar 2006

Undanfarna daga hefur verið umrætt í fjölmiðlum að fiskeldisfyrirtækið Sæsilfur í Mjóafirði, hafi ákveðið að hætta starfsemi m.a. sökum þess að raforkuverð hafi hækkað og eigi enn eftir að hækka. Í þessari umræðu hefur mikilvæg staðreynd í rafmagnsverðsmálum fiskeldisfyrirtækja með sjódælingu ekki komið skýrt fram og vill Landsvirkjun koma henni hér á framfæri.

Allt frá árinu 1987 hefur Landsvirkjun veitt fiskeldisfyrirtækjum með sjódælingu afslátt af rafmagnsverði. Í upphafi var það gert vegna þess að um sprotafyrirtæki var að ræða og þótti efnilegt að gera tilraun með þessa grein sem síðar gæti orðið stórnotandi á rafmagni. Á síðari árum tóku fleiri raforkuframleiðendur einnig þátt í því að gefa fiskeldisfyrirtækjum afslátt af rafmagnsverði. Fyrir ári síðan þegar raforkulög fyrir alvöru breyttu skipan orkufyrirtækja í samkeppnisrekstur og einkaleyfisrekstur óskuðu forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækja eindregið eftir því að þeir fengju tækifæri til að ljúka tilraunum með fiskeldi sem enn stæðu yfir og til þess þyrftu þeir að fá ódýrt rafmagn til næstu þriggja ára.

Landsvirkjun var eini raforkuframleiðandinn sem lýsti sig reiðubúinn að taka þátt í slíkri tímabundinni ráðstöfun en aðrir raforkuframleiðendur treystu sér ekki til þess. Síðan hefur Landsvirkjun veitt afslátt af smásölurafmagni til nokkurra fiskeldisfyrirtækja, rafmagni sem fyrirtækin kaupa af Hitaveitu Suðurnesja hf og RARIK. Nú er liðið eitt ár af þessu þriggja
ára tímabili og fiskeldisfyrirtækin hafa ekki kynnt neinar niðurstöður úr þessum tilraunum.

Jón Kjartan Jónsson forsvarsmaður Sæsilfurs hefur hins vegar lýst því yfir í fjölmiðlum að hátt raforkuverð sé önnur meginástæða þess að hann hyggist nú leggja niður fiskeldisreksturinn og er sú yfirlýsing hans óskiljanleg í ljósi þess sem hér hefur verið sagt.

Landsvirkjun mótmælir þeirri röngu fullyrðingu að hátt raforkuverð sé ástæða þess að fiskeldi Sæsilfurs í Mjóafirði sé lokað. Þar er ekki notað rafmagn í þeim mæli sem gert er í seiðaeldinu þar sem er sjódæling. Landsvirkjun hefur um langt árabil staðið við bakið á fiskeldisfyrirtækjum með sjódælingu og veitt þeim afslátt á raforkuverði í þeirri von að ganga megi úr skugga um hvort fiskeldið sé arðbær atvinnugrein eða ekki. Því miður virðast margir utanaðkomandi þættir aðrir en hátt raforkuverð hafa gert þennan rekstur erfiðan og leitt til þessarar ákvörðunar forsvarsmanna Sæsilfurs.

 

Fréttasafn Prenta