Frétt

Á fjórða hundrað þátttakenda sótti ráðstefnuna Orkulindin Ísland

30. janúar 2006

Ráðstefnan var haldin á Nordica hotel 27. janúar síðastliðinn.

Þátttakan, umræðurnar og upplýsingarnar sem komu fram á ráðstefnunni sýna mikilvægi orku- og áliðnaðarins hér á landi. Sóknarandinn á fundinum var afar eindreginn og augljóst er að engin ástæða er til þess fyrir þjóðina að láta háværan minnihlutahóp hrekja sig af leið uppbyggingar í orku- og áliðnaði.

Uppbygging minnkar áhættu
Í ræðu Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, kom fram að nýting orkulindanna og álframleiðsla hefðu tvímælalaust efnahagslegan ávinning í för með sér, einkum væru áhrifin á útflutning ótvíræð og jákvæð í ljósi þess hversu háðir Íslendingar eru innflutningi. Þrátt fyrir þá áhættu sem fælist í fjárfestingu á áli og orku væri meiri áhætta tekin með því að gera það ekki. Mikilvægt væri að markaðsvæða orkufyrirtækin, en það gæfi þeim aukið svigrúm og tryggði að ákvarðanir yrðu teknar á viðskiptalegum forsendum.

Afgerandi stuðningur í skoðanakönnun Gallup
Á ráðstefnunni kynnti Þóra Ásgeirsdóttir niðurstöður könnunar Gallup, sem gerð var að beiðni SA í nóvember sl. Þær benda eindregið til þess að Íslendingar séu jákvæðir í garð orku- og álfyrirtækjanna og styðja áframhaldandi uppbyggingu hér á landi. Af þeim sem tóku afstöðu voru 70,5% mjög eða frekar jákvæð gagnvart starfandi áliðnaði. 61% þeirra, sem tóku afstöðu eru jákvæð gagnvart áliðnaði, sem byggir á vatnsorku og tæplega 70% eru jákvæð þegar byggt er á gufuafli. Af þeim sem tóku afstöðu voru 55,4% jákvæð gagnvart frekari uppbyggingu áliðnaðar.

Virkjanir og umhverfisvernd geta farið saman
Þegar spurt var hvort fyrirtækin standi sig vel eða illa í umhverfismálum telja 79,6%, af þeim sem afstöðu tóku, álfyrirtækin standa sig vel og 85,5% að orkufyrirtækin geri það. Fleiri en tveir þriðju þeirra, sem afstöðu tóku, eru hlynntir frekari virkjun vatnsafls og tæplega 90% eru hlynntir frekari virkjun gufuafls.

Þegar spurt var hvort hægt sé að sætta sjónarmið umhverfisverndar og vatnsaflsvirkjunar svara 70% jákvætt en 30% neikvætt. Afstaðan er enn eindregnari þegar spurt er með sama hætti en gufuaflið en þá eru 88,3% jákvæðir en 11,7% neikvæðir. Réttilega hefur verið bent á, að tilhneiging sé hjá svarendum að vilja sættir og taka þurfi tillit til þess, þegar svörin eru skoðuð. Niðurstaðan er hins vegar svo afgerandi að varla verður efast um að meirihlutinn telur að virkjanir og umhverfisvernd geti átt samleið.

Framangreind svör við spurningum Gallup sýna að verulegur stuðningur er við uppbyggingu orku- og áliðnaðar í landinu þvert á það, sem stundum er haldið fram.

 Pallborðsumræður á ráðstefnu Samtaka iðnaðarins 

Frá pallborðsumræðum sem fóru fram að erindum loknum

Ál- og raforkufyrirtæki í fararbroddi í umhverfisvitund
Bryndís Skúladóttir, efnaverkfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, benti á að ál er bæði létt og endingargott efni, sem kæmi í stað þyngri og endingarminni efna. Þess vegna minnkuðu umhverfisáhrif vörunnar, en þar að auki skilaði ál sér vel til endurvinnslu, sem aðeins krefðist 5% þeirrar orku, sem færi í frumframleiðsluna. Bryndís vakti athygli á að ál- og orkufyrirtækin væru í fararbroddi þegar að kæmi að umhverfisvitund. Hún benti á að losun gróðurhúsalofttegunda væri margfalt meiri frá brennslu jarðefniseldsneytis en endurnýjanlegrar orku frá vatnsafli eða jarðvarma. Þess vegna væru virkjanir hér á landi eftirsóknarverðar. Nauðsynlegt væri að halda áfram vinnu við orkunýtingu og landnýtingu til lengri tíma.

Konur vilja vinna í álveri
Smári Geirsson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar rakti sögu atvinnuuppbyggingar á Austurlandi. Þáttaskil hefðu orðið með framkvæmdunum á Austurlandi og væri vöxturinn mun meiri og jákvæðari en gert hafði verið ráð fyrir. Sérstaka athygli vakti, að 84% kvenna í Fjarðabyggð taldi sig haf áhuga á störfum í fyrirhuguðu álveri. Andrúmsloftið væri jákvætt og fólk bjartsýnt á framtíðina. "Þann dag tók Austurland stakkaskiptum", sagði Smári þegar hann minntist 15. mars 2003, en þá var skrifað undir virkjunar- og álverssamninga.

Þekkingarstörf í hátæknigreinum
Ágúst Valfells, lektor við HR, fjallaði um þátt orku- og álvinnslu við hátæknistörf og þekkingariðnað hér á landi. Ágúst sagði að virkjanir, hitaveitur og álframleiðslu væru fyrstu skrefin, sem tekin hefðu verið í hátækniiðnaði. Gríðarlega mörg þekkingarstörf tengdust þessari uppbyggingu og nefndi hann í því sambandi að LV hefði á 5 ára tímabili (2000-2004) keypt rannsóknar- og hönnunarþjónustu fyrir tæpa 10 milljarða króna.

Góð störf hjá stöðugum fyrirtækjum
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, benti á að störf í áliðnaði væru góð og vellaunuð auk þess sem mikill stöðugleiki væri í starfsmannahaldi. Meðalstarfsaldur hjá Alcan væri með því lengsta sem þekktist og starfsmannavelta tæplega tífalt minni en almennt meðal félagsmanna ASÍ. Gylfi benti á að regluleg mánaðarlaun í álverum væru mun hærri en meðallaun verka- og iðnaðarmanna í öðrum greinum. Álver væru vissulega hættulegir vinnustaðir, en á móti kæmi mikill skilningur í öryggismálum hjá starfsmönnum og stjórnendum enda væri lítið um alvarleg slys.

Auk þeirra, sem hér hafa verið nefndir til sögunnar, fluttu þeir Hallur Hallsson sagnaritari, Guðmundur Páll Jónsson bæjarstjóri á Akranesi og Gunnar Tryggvason fjármálastjóri Enex erindi. Í lok fundarins voru pallborðsumræður með þátttöku Björgólfs Thorsteinssonar formanns Landverndar, Friðriks Sophussonar forstjóra LV, Guðmundar Þóroddssonar forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíusar Jónssonar forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, Tómasar Más Sigurðssonar forstjóra Alcoa, Fjarðaáls og Ragnars Guðmundssonar framkvæmdastjóra hjá Norðuráli.

Frekari upplýsingar og erindin sem flutt voru má nálgast á vef Samtaka atvinnulífsins.

Friðrik Sophusson

Fréttasafn Prenta