Frétt

Athugasemdir vegna greinar um ráðstefnuna Orkulindin Ísland

3. febrúar 2006

Athugasemd Álfheiðar Ingadóttur við grein forstjóra um ráðstefnuna Orkulindin Ísland

Sem stjórnarmaður í Landsvirkjun vil ég biðja landsmenn alla, sem eru hinir raunverulegu eigendur fyrirtækisins, afsökunar á eftirfarandi ummælum á vefsíðu Landsvirkjunar:

„Þátttakan, umræðurnar og upplýsingarnar sem komu fram á ráðstefnunni [Orkulindin Ísland] sýna mikilvægi orku- og áliðnaðarins hér á landi. Sóknarandinn á fundinum var afar eindreginn og augljóst er að engin ástæða er til þess fyrir þjóðina að láta háværan minnihlutahóp hrekja sig af leið uppbyggingar í orku- og áliðnaði“ ...

Hér er alhæft út frá umræðum á þröngri og einlitri ráðstefnu orkugeirans og á niðrandi hátt fjallað um afstöðu þeirra sem ekki styðja stóriðjustefnu stjórnvalda. Þessi framsetning er að mínu mati ekki sæmandi fyrirtæki sem er í almannaeigu og ber að hafa lýðræðishefðir að leiðarljósi. Skrifin skaða að mínu mati ímynd Landsvirkjunar, stjórnar fyrirtækisins og eigenda þess og hef ég skorað á formann stjórnar Landsvirkjunar að biðja opinberlega afsökunar á þeim.

 Álfheiður Ingadóttir

 

Athugasemd við athugasemd Álfheiðar Ingadóttur

Að gefnu tilefni skal tekið fram að grein um ráðstefnuna Orkulindin Ísland, sem birtist í mínu nafni í Innanhússpósti Landsvirkjunar og síðar á vef fyrirtækisins er rituð  á mína ábyrgð.  Vandséð er hvernig hægt er að ætlast til að annar aðili biðjist afsökunar á skoðunum mínum, sem þar birtast.

Friðrik Sophusson, forstjóri

Fréttasafn Prenta