Frétt

Ársreikningur Landsvirkjunar 2005

6. mars 2006

Ársreikningur Landsvirkjunar er í öllum meginatriðum gerður með sama hætti og árið á undan. Samstæðureikningur fyrirtækisins tekur, auk móðurfélagsins, til fjögurra dótturfélaga, Fjarska ehf., Icelandic Power Insurance Ltd., Landsnets hf. og Íslenskrar jarðhitatækni ehf.

Helstu stærðir ársreiknings eru (í milljónum króna):

  Samstæða   Móðurfélag  
  2005 2004 2005 2004
Rekstrartekjur 15.552 13.701 16.096 13.624
Rekstrarkostnaður:        
Rekstrar- og viðhaldskostnaður 5.913 4.691 6.799 4.750
Afskriftir 4.904 5.347 4.840 5.249
Rekstrarkostnaður alls 10.817 10.038 11.639 9.999
Rekstrarhagnaður 4.735 3.663 4,457 3.625
Fjáreignatekjur 1.596 3.532 1.703 3.547
Áhrif dótturfélaga     134 23
Hlutdeild minnihluta -37      
Hagnaður 6.294 7.195 6.294 7.195
         
Eignir samtals 181.985 154.685 176.489 153.614
Eigið fé 58.003 51.377 58.003 51.377
Hlutdeild minnihluta 1.720      
Skuldir 122.262 103.308 118.487 102.237
         
Handbært fé frá rekstri 5.927 4.622 5.724 4.487
Fjárfestingar 28.582 20.897 25.650 20.866
EBITDA 9.639 9.010 9.297 8.875
Eiginfjárhlutfall 31,87% 33,21% 32,86% 33,45%

 

Rekstrarhagnaður hækkaði samtals um 1.072 milljónir króna miðað við fyrra ár. Afskriftir eru 443 m.kr. lægri en árið á undan en fyrirtækið hefur í samræmi við lög um ársreikninga og settar reikningsskilareglur breytt um aðferð við meðferð á undirbúningskostnaði virkjana í ársreikningi. Í stað þess að eignfæra beinan rannsóknar- og þróunarkostnað er nú aðeins eignfærður þróunarkostnaður sem ætla má að afli tekna í framtíðinni. Áhrif þessara breytinga á rekstrarreikning eru þau að afskriftir og gjaldfærður kostnaður verða um 138 milljónum króna lægri en ef fyrri aðferð hefði verið beitt. Aukning rekstrartekna er að verulegu leyti vegna hækkunar á orkuverði til stóriðju auk þess sem flutningskerfi Landsnets hf. er stærra en flutningskerfi Landsvirkjunar var áður. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,51% á árinu 2005 en þeir voru um 4,0% árið áður. Í árslok 2005 voru 71% langtímalána í erlendri mynt.

Góð afkoma á árinu 2005 skýrist meðal annars af gengishagnaði af langtímalánum. Gengishagnaðurinn er óinnleystur og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Gengishagnaður langtímalána skýrist aðallega af breytingum á gengi evru og dollars gagnvart krónu.

Í ársbyrjun 2005 yfirtók Landsnet hf. rekstur flutningsvirkja Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hf. Fyrirhugað var að þessar eignir yrðu færðar til félagsins 1. janúar 2005, en þar sem endanlegt yfirtökuverð lá ekki fyrir gat ekki orðið af því. Eignirnar voru því leigðar til Landsnets hf. á árinu. Samkvæmt samkomulagi sem gert var 1. júlí 2005 voru allar flutningseignir Landsvirkjunar yfirfærðar til Landsnets hf. í lok árs 2005. Tekjufærð er í ársreikningi móðurfélags eignaleiga að fjárhæð 2,1 milljarður króna. Landsvirkjun á 69,4% eignarhlut í Landsneti hf.

Á árinu 2003 hófust virkjunarframkvæmdir við Kárahjnúka í framhaldi af gerð orkusölusamnings við Fjarðaál, dótturfélag Alcoa.  Þar verður reist 690 MW aflstöð og jafnframt lagðar flutningslínur til Reyðarfjarðar. Stefnt er að því að fyrsta vél virkjunarinnar, af sex, verði gangsett 1. apríl 2007.  Nánari lýsing á framkvæmdum er að finna á heimasíðu virkjunarinnar www.karahnjukar.is. Í árslok 2005 nam byggingarkostnaður Kárahnjúkavirkjunar samtals 55,4 milljörðum króna, þar af var framkvæmt fyrir 21,1 milljarð á árinu. Byggingakostnaður flutningsvirkja nam 7,9 milljörðum króna.

Ársreikningur Landsvirkjunar verður lagður fyrir ársfund fyrirtækisins 6. apríl nk.

Viðhengi:
Ársreikningur Landsvirkjunar 2005

 

Fréttasafn Prenta