Frétt

Gangvirði afleiðusamninga í ársreikningi Landsvirkjunar

16. mars 2006

Ekki verður hjá því komist að fara nokkrum orðum um innihald greinarinnar enda eru þar bæði fullyrðingar og misskilningur sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Hvað er áhættustýring?
Það er markmið áhættustýringar Landsvirkjunar að mæla og fylgjast með markaðsáhættu fyrirtækisins í þeim tilgangi að tryggja rekstrarafkomu með því að draga úr sveiflum í rekstri vegna breytinga á gengi, vöxtum og álverði.  Landsvirkjun leitast við að halda áhættu innan ásættanlegra marka og notar til þess m.a. afleiður.  Afleiðum er því ekki ætlað að eyða allri áhættu.  Þess í stað er þeim ætlað að breyta áhættunni þannig að hún sé innan ásættanlegra marka.  Stefna Landsvirkjunar í áhættustýringu samþykkt af stjórn fyrirtækisins.

Hefur Landsvirkjun kastað sér út í spákaupmennsku?
Raforkusölusamningar sem gerðir hafa verið við Alcoa, Alcan og Norðurál eru í eðli sínu afleiðusamningar þar sem álverð hefur bein áhrif á orkuverð sem er í bandaríkjadollurum.  Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að tekjur Landsvirkjunar eru breytilegar bæði vegna breytinga í álverði og gengi dollars.  Landsvirkjun hefur á síðustu árum leitast við að draga úr þessari áhættu enda flestir sammála um að það sé ekki ásættanlegt að gera ekkert til að draga úr sveiflum.  Það að gera ekkert er ákvörðun sem flokkast undir stöðutöku að mati Landsvirkjunar.  Það sama á við um þá áhættu sem stafar af gengi gjaldmiðla og vöxtum.  Það þætti nokkuð sérstakt fyrirtæki sem ekki stýrði gengisáhættu sinni.  Hví skyldi öðru máli gegna um álverðsáhættu?

Þarf Landsvirkjun að kaupa ál á skyndimarkaði til að standa við framvirka samninga um ál?
Eins og fyrr segir eru orkusölusamningar Landsvirkjunar tengdir verði á áli.  Það þýðir m.ö.o. að Landsvirkjun fær greitt sem nemur andvirði ákveðins hundraðshluta framleiðslunnar hjá álverunum.  Greiðslan fer fram í Bandaríkjadollurum en fræðilega má segja að álverin gætu allt eins afhent Landsvirkjun ákveðinn tonnafjölda af áli sem fyrirtækið seldi síðan á markaði.  Landsvirkjun er þannig í sömu stöðu og álframleiðendur.  Framvirkir álsamningar Landsvirkjunar eru gerðir með hliðsjón af þessum orkusölusamningum.  Þeir taka mið af framvirku álverði en eru í dollurum og því er aldrei um að ræða að Landsvirkjun þurfi að kaupa ál á skyndimarkaði til að uppfylla þá.  Landsvirkjun á “álið” nú þegar í gildandi samningum.

Hefur Landsvirkjun tapað 5,3 milljörðum kr. á afleiðuviðskiptum með ál?
Gangvirði eins og það kemur fram í ársreikningi mælir upplausnarvirði afleiðusamninganna á ákveðnum degi.  Það er í eðli sínu punktstaða sem mælir hversu mikið fyrirtæki þarf að greiða til samningsaðila eða hversu mikið fyrirtækið fær greitt eftir því hvernig markaðsaðstæður eru á hverjum tíma.  Neikvætt gangvirði á samningum Landsvirkjunar 31. desember 2005 þýðir því að þessa upphæð hefði þurft að greiða á þessum ákveðna degi ef ætlunin hefði verið að leysa þá upp.  Þetta er ekki ætlun Landsvirkjunar enda er umræddum samningum ætlað að verja tekjur til næstu 5 ára.  Nákvæmlega sama á við um meðferð áfallins gengishagnaðs eða taps af erlendum lánum en í uppgjöri Landsvirkjunar má finna verulegan gengishagnað vegna erlendra lána fyrirtækisins á árinu 2005. Þessi gengishagnaður verður ekki greiddur út á einum degi frekar en gengistap ef um það er að ræða. Einnig er vert að hafa í huga að ofangreind áltenging í orkusölusamningum kallast innbyggðar afleiður. Þessar innbyggðu afleiður hafa sjálfstætt gangvirði.  Eins og fram kemur í ársreikningi Landsvirkjunar hefur verið ráðist í umfangsmikla vinnu við að meta gangvirði þessara innbyggðu afleiðna og eru vísbendingar um að jákvætt gangvirði þeirra sé umtalsvert við núverandi aðstæður.

Samkvæmt nýjum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) er fyrirtækjum sem hafa skráð skuldabréf á markaði nú skylt að upplýsa um markaðsvirði allra fjármálasamninga.  Landsvirkjun er hér engin undantekning en þessi meðferð í uppgjörum er tiltölulega ný hér á landi og hefur fyrst og fremst verðið notuð hjá fjármálastofnunum.  Lesendum er bent á að kynna sér þessa nýju staðla og sérstaklega ákvæði um markaðsvirðingu fjármálasamninga.

Fellur áhættustýring og markaðsviðskipti undir hlutverk Landsvirkjunar?
Tilgangur Landsvirkjunar skv. lögum nr. 42 /1983 er eftirfarandi: “Landsvirkjun stundar starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.“ Það er því greinilegt að ofangreind starfsemi samræmist í hvívetna tilgangi fyrirtækisins.  Í ljósi umræðu síðustu daga má geta þess að lánshæfisfyrirtæki hafa lagt á það áherslu í viðræðum við Landsvirkjun að fyrirtækið beiti virkri áhættustýringu en Landsvirkjun hefur lánshæfiseinkunnina Aaa frá Moody’s og AA- frá Standard & Poor’s.

Hvaða verklagsreglur gilda innan fyrirtækisins um samninga um álverð?
Áhættustýring er mikilvægur og vaxandi þáttur í starfsemi Landsvirkjunar sem ætlað er að jafna sveiflur vegna fjárhagslegra þátta eins og gengi, vaxta og álverðs.  Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt ítarlega stefnu um áhættustýringu, viðmið og mælikvarða þar að lútandi.  Innan fyrirtækisins starfar sérstök áhættustjórn sem setur nánari ramma um eðli og magn viðskipta.  Yfirmaður áhættustýringar mælir og hefur eftirlit með áhættu fyrirtækisins og markaðsviðskipti sjá um gerð samninga.

Hvernig er eftirliti háttað?
Eftirlit með áhættustýringu Landsvirkjunar er margháttað.  Landsvirkjun hefur vottað gæðakerfi sem þýðir að verklagsreglur fyrirtækisins um áhættustýringu hafa verið rýndar.  Innri endurskoðendur hafa sérstakt eftirlit með því að verklagsreglum í áhættustýringu sé fylgt auk þess sem ytri endurskoðendur fara yfir starfsemina.

Liggur fyrir að eigendur hafi heimilað fyrirtækinu að stunda slík viðskipti?
Landsvirkjun hefur stundað afleiðuviðskipti í áhættustýringarskyni um nærfellt 20 ára skeið.  Fyrirtækið gerir mjög ríkar kröfur um lánshæfi mótaðila sem eru erlendir bankar í slíkum viðskiptum enda hafa þessir bankar allir a.m.k. jafngott lánshæfi og íslenska ríkið.  Þessir aðilar gera einnig ríkar kröfur til Landsvirkjunar um lögformleika viðskipta.  Heimildir Landsvirkjunar til afleiðuviðskipta eru samþykktar í stjórn fyrirtækisins árlega og oftar ef nauðsyn krefur.  Heimild stjórnar er í framhaldinu send til eigenda til samþykktar.  Eigendur hafa því heimilað þessi viðskipti.

Telur Landsvirkjun sig hafa þekkingu á álmarkaði umfram aðra þáttakendur á þeim markaði?
Þekking Landsvirkjunar á álmörkuðum hefur vaxið hratt á undanförnum árum enda fyrirtækið í stöðugu sambandi við markaðsaðila og ráðgjafa á þessu sviði.  Sama  gildir reyndar um gengi og vexti enda hefur fyrirtækið áratuga reynslu og þekkingu á fjármálamörkuðum.  Það þýðir þó ekki að fyrirtækið hafi þekkingu umfram aðra enda verður vandséð hverjir hafi slíka þekkingu án innherjaupplýsinga.  Í þessu sambandi verður að hafa í huga að áhættustýring snýst um að draga úr áhættu, ekki að ná hæsta verðinu hverju sinni.

Niðurlag
Hátt álverð um þessar mundir er ánægjuefni og nýtur Landsvirkjun góðs af. Gerð áhættuvarnarsamninga um ál gera það þó að verkum að fyrirtækið nýtur þess ekki til fulls þar sem hluti varnarsamninganna er á lægra verði en núverandi markaðsverð. Sérfræðingar eru á einu máli að álverð muni lækka þegar frá líður.  Það er ástæðan fyrir því að framleiðendur og markaðsaðilar hafa varið sig í ríkum mæli á undanförnum misserum. 

Í greininni sem vísað er til að ofan er látið að því liggja að ekki hefði átt að ráðast í áhættuvarnir um álverð.  Sérfræðingar eru hins vegar sammála um að áhættuvarnir, hvort sem þær snúa að gengi, vöxtum eða álverði séu eðlilegur hluti af starfsemi fyrirtækja. Það er auðvelt að rýna í fortíðina og fullyrða að ekki hefði átt að gera neitt.  Hins vegar vita allir að verð geta bæði hækkað og lækkað.  Gallinn er sá að sú þróun er ekki þekkt með vissu fyrirfram.  Hafa verður í huga að aðgerðaleysi er ákvörðun.  Sú ákvörðun er sjaldnast mæld sérstaklega og því síður tekið eftir þegar eitthvað gerist.  Hins vegar um leið og ákveðið er að fara út í markvissar aðgerðir er fylgst nákvæmlega með framgangi mála og árangur mældur reglulega.  Þetta eru aðstæður sem aðilar á fyrirtækjamarkaði þekkja vel en mikilvægt er að aðrir kunni skil á líka.

Að lokum skal þess getið að Þórólfur Matthíasson hefði getað fengið upplýsingar varðandi ofangreint hjá Landsvirkjun hefði hann leitað eftir því en af einhverjum ástæðum kaus hann að gera það ekki.


       Stefán Pétursson
       framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Fréttasafn Prenta