Frétt

Ál, orka og andrúmsloft

6. apríl 2006

Bjarni Bjarnason á samráðsfundi Landsvirkjunar 2006Bjarni Bjarnason sagði frá því að árið 2000 hefði álframleiðsla í heiminum numið 23 milljónum tonnna. Á síðustu 5 árum hefur hún aukist um 5,5%. Áliðnaðurinn notar tæplega 0,4% þeirrar frumorku sem framleidd er í heiminum. Spáð er örum vexti í álframleiðslu næstu 20 árin og að framleiðslan verði komin í 64 milljónir tonna árið 2025.

Árið 1960 nægðu 4 milljónir tonna til að fullnægja þörfum mannkynsins. Til að mæta eftirspurninni þarf því að auka framleiðsluna um 1,7 milljónir tonna að meðaltali næstu 20 árin en það svarar til ríflega 5 nýrra álvera á hverju ári af þeirri stærð sem Fjarðaál byggir nú í Reyðarfirði.

Bjarni sagði enn fremur frá því að fjöldi álvera væri nú í byggingu víða um heim. Í töflu sem hann sýndi kom fram 80% þeirrar orku sem þessi álver (að undanskildum þeim íslensku) muni nýta komi frá jarðefnaeldsneyti. Meirihluti þess er jarðgas en drjúgur hluti er kol. Svipaða sögu er að segja um þau álver sem áformað er að byggja næstu 5-10 árin.

Pétur Reimarsson á samráðsfundi Landsvirkjunar 2006Pétur Reimarsson sagði frá því að ýmislegt væri unnt að gera til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og til þess að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda. T.d. mætti bæta nýtingu eldsneytis í bílvélum, bæta einangrun bygginga, bæta almenningssamgöngur og nýta betur eldsneyti við orkuframleiðslu. 

Pétur minntist einnig á loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og Kyoto - bókunina við samninginn. Hann sagði að allar líkur bendi til að Ísland verði innan þeirra marka sem sett hafa verið um útstreymi að meðaltali á árunum 2008-12.

Pétur sagði að nú væru aðildarríki samningsins að skila inn tillögum um hvernig þau sjá fyrir sér annars vegar hvað taka skuli við af Kyoto - bókuninni og hins vegar hvernig þróa skuli áfram almenn ákvæði loftslagssamningsins. Hann sagði mikilvægt að öll þau ríki þar sem útstreymi er hvað mest og þar sem aukningin er hvað mest taki á sig skuldbindingar, mikilvægt sé að aukna kröfur um að við vinnslu jarðefnaeldsneytis og orkuframleiðslu sé útstreymi gróðurhúsalofttegunda komið fyrir jafn harðan. Fyrir Ísland er lykilatriði að ekki séu lagðar hindranir á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda landsins. Slíkt sé í raun í andstöðu við anda loftslagssamningsins, hagsmuni landsins og við alþjóðleg umhverfissjónarmið.

Viðhengi:
Erindi Bjarna Bjarnasonar
Erindi Péturs Reimarssonar

 

Fréttasafn Prenta