Frétt

Andri Snær kynnti Draumalandið í heimsókn hjá Landsvirkjun

3. maí 2006

Fundurinn var vel sóttur og stóð töluvert lengur en ætlunin var enda umræður fjörugar. Margt í máli Andra Snæs tengdist þekkingarsviði og störfum fundarmanna, og eins og við mátti búast voru ýmsir ósammála framsetningunni í veigamiklum atriðum.

Andri lýsti því að hann hefði skrifað Draumalandið í reiði eftir að hafa farið um landið sem sekkur vegna Kárahnjúkavirkjunar og hugleitt hversu máttlaus hann var gagnvart ákvörðunum um framkvæmdina. Hann líkir saman hernaðarvél og virkjunarbatteríi sem hvort tveggja taki á sig sjálfstætt líf. Þeir sem utan við standi geti ekki auðveldlega hamið eða stöðvað framganginn. Tilraun hans til að hafa áhrif í báráttu gegn virkjunum og stóriðju felst í að benda á staðreyndir og tengja þær saman í ákveðna heildarmynd sem á að vekja fólk til umhugsunar um að ekki sé allt með felldu og þar með til andstöðu með honum.

Það kom fram í ábendingum og athugasemdum fundarmanna til Andra Snæs að staðreyndirnar sem hann dregur fram máli sínu til stuðnings eru oft á tíðum valin dæmi sem gefa ekki rétta mynd af því sem hann fjallar um að mati þeirra sem til þekkja. Til dæmis dregur hann fram fjölmörg neikvæð atriði um álframleiðslu erlendis sem eru ekki dæmigerð og í engu samræmi við það sem best er gert í þeirri starfsemi. Dæmi hans lýsa þess vegna ekki þeim raunveruleika sem á við um þessa starfsemi eins og hún fer fram á Íslandi.

Með svipuðum hætti dregur Andri Snær fram valin atriði þegar hann fjallar um innlend málefni. Atburðarásin í virkjunarmálum er gerð tortryggileg, henni lýst sem ólýðræðislegri og gefið í skyn að framganga einstaklinga hafi verið siðlaus í sumum tilfellum. Þetta á t.d. við um frásögn hans af deilum og ákvörðunum um Norðlingaölduveitu. Vandaðri upplýsingaöflun og sanngjarnari framsetning hefði verið auðveld ef Andri Snær hefði leitað eftir heildstæðum upplýsingum um málefnið en ekki látið sér nægja að tína saman tilvitnanir í dagblöð frá ólíkum tímum og spyrða þær saman þannig að lesandinn skynjar ekki rétt samhengi þeirra og bakgrunn.

Undirrituðum þykir athyglisvert að Andri Snær getur gjarna heimilda með áberandi hætti úti á spássíu Draumalandsins og birtir mikla heimildaskrá í bókarlok.  Eins og að ofan má sjá er fljótgert að átta sig á því að meðferð heimilda er þó stórlega áfátt, hún er ekki hlutlæg eða til upplýsingar heldur miðast hún við að styðja málflutning sem virkjar fólk til baráttu. Þetta er í raun stílbragð sem gefur bókinni yfirbragð fræðirits en val á hemildum og meðferð þeirra undirstrikar að hún er áróðursrit.

Á fundinum nýttu sumir áheyrenda tækifærið til að fara yfir og fræða Andra Snæ um viss grunnatriði sem tengjast áliðnaði og orkumálum bæði hérlendis og alþjóðlega rétt eins og Andri Snær kynnti sín sjónarmið. Fyrir vikið varð fundurinn bæði meira fræðandi og skemmtilegri en ef hann hefði einskorðast við kynningu Andra Snæs á eigin skoðunum. Almennt voru fundarmenn ánægðir með að Andri Snær skyldi koma og kynna afstöðu sína. Það er von okkar hjá Landsvirkjun að skoðanaskipti og sú gagnkvæma upplýsingagjöf sem þarna fór fram verði Andra Snæ og öðrum fundarmönnum gott veganesti í frekari umræður.

Þorsteinn Hilmarsson

Fréttasafn Prenta