Frétt

Samstarfssamningur undirritaður við Slysavarnafélagið Landsbjörg

24. apríl 2006

Um nokkurn tíma hafa Landsvirkjun, Landsnet og RARIK verið í viðræðum við Slysavarnafélagið Landsbjörg um samstarf á sviði þjálfunar og aðstoðar í vá og við ýmis verkefni til að tryggja eins og kostur er truflunarlausa raforkuafhendingu. Þetta er gert í ljósi þess að raforkufyrirtækin hafa mikla samfélagslega ábyrgð hvað framleiðslu og afhendingu á raforku varðar.

Eins og alþjóð er kunnugt um þá hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg og þær björgunarsveitir sem tengjast félaginu verið að eflast sem heildarsamtök með heilsteypta stefnu og sameiginleg markmið. Samtökin eru nú í mun betri stöðu til að sameina krafta allra sinna félagsmanna og þar með að takast á hendur mun stærri og flóknari verkefni.

Nú hafa viðræður aðila leitt til samkomulags sem undirritað var af forstjórum orkufyrirtækjanna þriggja þ. 19. apríl sl. Í samkomulaginu felst að Slysavarnafélagið Landsbjörg skilgreini í sínum vinnuferlum aðstoð við orkufyrirtækin þegar þau óska þess við ýmis verkefni og aðstoð í vá. Einnig stendur orkufyrirtækjunum til boða, fyrir sína starfsmenn, allt það sem félagið hefur upp á að bjóða hvað þjálfun varðar eins og um eigin félagsmenn sé að ræða.

Orkufyrirtækin munu taka að sér að þjálfa valda félagsmenn í að takast á við verkefni hjá orkufyrirtækjunum í vá. Fyrir þetta framlag Slysavarnafélagsins Landsbjargar styrkja orkufyrirtækin félagið um fasta upphæð á ári í þrjú ár.

Orkufyrirtækin fagna þessu samkomulagi við Slysavarnafélagið Landsbjörg og telja að þau verði betur í stakk búin til að bregðast við í vá og við meiriháttar uppákomum í raforkukerfinu. Það er von orkufyrirtækjanna að þetta samkomulag eigi eftir að þróast áfram öllum aðilum til góðs.

Undirritun samstarfssamnings við Landsnet

Frá undirritun samningsins. Á myndinni eru frá vinstri: Tryggvi Þór Haraldsson, rafmagnsveitustjóri, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Þórður Guðmundsson,
forstjóri Landsnets og Sigurgeir Guðmundsson, formaður
Slysavarnafélagsins Landsbjargar

Fréttasafn Prenta