Frétt

Samráðsfundur Landsvirkjunar 2006

6. apríl 2006

Á samráðsfundinum fluttu erindi þau Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra og Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður. Friðrik Sophusson, forstjóri, flutti skýrslu forstjóra um starfsemi Landsvirkjunar. Á fundinum var kynnt gæðavottun Landsvirkjunar samkvæmt ISO 9001-2000 staðlinum.

Þá fór fram afhending námsstyrkja til 6 háskólanema í framhaldsnámi. Einnig flutti Bjarni Bjarnason, framkvæmdastjóri orkusviðs Landsvirkjunar, erindið Ál og orka í heiminum og Pétur Reimarsson, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, flutti erindið Orka og andrúmsloft.

Valgerður Sverrisdóttir á samráðsfundi Landsvirkjunar 2006Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra greindi í ávarpi sínu frá viljayfirlýsingu iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans á Akureyri í febrúar á síðasta ári um að íslenska ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Var ætlunin með þeirri breytingu að skýra línur í eignarhaldi raforkufyrirtækja sem starfa nú í umræddu samkeppnisumhverfi, enda ekki æskilegt í því ljósi að eigendur Landsvirkjunar ættu allir stóra hluti í öðrum orkufyrirtækjum. Má í því sambandi nefna að Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun eru stærstu fyrirtækin hér á landi í framleiðslu á raforku og ættu því að eiga í harðri samkeppni sín á milli á því sviði. Með tilliti til slíkra sjónarmiða er afar óæskilegt að sami eigandi geti átt stóra hluti í báðum fyrirtækjum og tekið ákvarðanir um viðskipti beggja.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson á samráðsfundi Landsvirkjunar 2006Í ræðu sinni fjallaði Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar um ýmis mál sem tengjast Landsvirkjun og hafa verið ofarlega á baugi síðustu mánuði. Hann sagði að áliðnaður myndi að nokkru leyti þróast líkt og fiskveiðar, sem notar aðeins lítinn hluta af því mannafli sem áður var. Framleiðni í áliðnaði muni aukast og mikilvægið hvað varðar atvinnuþátttöku minnka, en greinin verði engu að síður veigamikil stoð í útflutningstekjum þjóðarinnar um langa framtíð. Jóhannes Geir sagði einnig að greiningardeildir banka hefðu ekki gætt nægilegrar nákvæmi í umfjöllun sinni um álframleiðslu og þjóðhagsleg áhrif nýrra álvera.

Friðrik Sophusson á samráðsfundi Landsvirkjunar 2006Friðrik Sophusson, forstjóri sagði frá starfsemi Landsvirkjunar á liðnu ári. Á þessu ári munu framkvæmdir vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar ná hámarki, en á því næsta mun smám saman draga úr þeim, þar til þeim verður að mestu lokið í árslok 2008. Sagði Friðrik að framkvæmdir á árinu 2005 hefðu almennt gengið vel og flestir verkhlutar hafi verið í samræmi við áætlanir. Undantekning á þessu var þó gerð aðrennslisganga virkjunarinnar, sem vegna erfiðra jarðfræðiaðstæðna er orðin um 4-5 mánuðum á eftir áætlun. Sömuleiðis er stálfóðrun fallganga 3 mánuðum á eftir áætlun.

Viðhengi:
Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur
Ræða Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar
Ræða Friðriks Sophussonar
Ársskýrsla Landsvirkjunar 2005

Tenging:
Dagskrá samráðsfundarins

 

Fréttasafn Prenta