Frétt

Hvað er í blýhólkinum?

12. maí 2006

Í blýhólkinum eru teikningar af mannvirkinu ásamt lýsingu á byggingu þess og tilgangi. Þar er því lýst hverjir stóðu að byggingunni og hverjir lögðu hornsteininn.

Að þessu sinni voru jafnframt lögð í blýhólkinn verðlaunaverk sex grunnskólanema um orku og orkumál sem þeir unnu í samkeppni sem Landsvirkjun stóð fyrir. Börnin sex lögðu hornsteininn ásamt forseta Íslands.

Þá varð Landsvirkjun við þeirri ósk frá Félagi um verndun hálendis Austurlands, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökum Vesturlands, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands, Félagi um náttúruvernd á Norðurlandi, Náttúruvaktinni, Íslandsvinum, Hætta-hópnum og Augnabliki að setja skjal í blýhólkinn þar sem líst er sjónarmiðum andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar.

Með því skjali fylgir skjal sem lýsir undirbúningi og ákvarðanatöku um byggingu Kárahnjúkavirkjunar af sjónarhóli Landsvirkjunar. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, lýsti viðbrögðum sínum við beiðni náttúruverndarsamtakanna með eftirfarandi orðum:

Forseti Íslands tjáði okkur að þessi samtök hefðu haft samband við hann og óskað eftir að forsetinn beitti sér fyrir því að texti frá þeim yrði lagður í hornsteininn. Forsetinn sagði mér að hann teldi rétt að láta okkur vita af þessu en að hann mundi ekki fyrir sitt leyti hafa neinar óskir í frammi við Landsvirkjun um þetta mál. Þar sem Kárahnjúkavirkjun hefur verið umdeild meðal þjóðarinnar fannst mér ekki nema sjálfsagt að ólík sjónarmið yrðu varðveitt í hornsteininum. Við ákváðum því að varðveita textann sem sendur var forsetanum með sama hætti og önnur gögn sem lögð voru í hornsteininn.

Viðhengi:
Lýsing á virkjuninni
Teikningar af mannvirkinu
Verðlaunaverk grunnskólanema
Ólík sjónarmið gagnvart virkjuninni
Skjöldur á hornsteini

 

Fréttasafn Prenta