Frétt

Hornsteinn Kárahnjúkavirkjunar lagður

12. maí 2006

Fjölmenni var við lagningu hornsteins Kárahnjúkavirkjunar, sem fór fram í stöðvarhúsinu. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson lagði hornsteininn og naut við það aðstoðar 6 barna sem unnið höfðu verkefni um orku og orkumál. Við athöfnina gaf Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps, stöðinni nafn. Hlaut stöðin nafnið Fljótsdalsstöð.

 

 Hornsteinn lagður að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar 

Forseti Íslands leggur hornstein að Kárahnjúkavirkjun

Í ávarpi sem Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, flutti sagði hún það stórkostlegt að hafa verið þátttakandi í því ævintýri sem hér um ræðir. "Ekkert eitt verkefni hefur haft jafnmikil áhrif á þróun byggðar og lífsgæða hér á þessu svæði síðustu áratugi. Verkefnið mun auk þess hafa varanleg jákvæð áhrif á efnahag íslensku þjóðarinnar", sagði Valgerður.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar flutti ávarp og sagði meðal annars að hann gæti fullyrt að virkjunin sé byggð til tvöhundruð ára og að virkjunin geti framleitt rafmagn á arðbæran hátt í það minnsta þann tíma. "Ég vil þó segja um þetta að ef spár um hlýnandi loftslag ganga eftir þá eru allar líkur á að fyllingartími lónsins sé ekki 400 – 500 ár, eins og væri ef byggt er á veðurgögnum síðustu fimmtíu ára, heldur miklu lengri tími", sagði Jóhannes.

Friðrik Sophusson flutti ræðu og lýsti í henni framkvæmdunum og sagði meðal annars að fyrstu hugmyndir um virkjun í Fljótsdal hefðu komið fram fyrir um 60 árum síðan með virkjun Bessastaðaár.

Að því loknu var hornsteinn virkjunarinnar lagður og séra Lára Oddsdóttir flutti blessunarorð.

Eftir athöfnina í stöðvarhúsinu var boðið til móttöku í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Þar flutti Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, ávarp.

Viðhengi:
Ræða Valgerðar Sverrisdóttur
Ávarp Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar
Ræða Friðriks Sophussonar
Ávarp Eiríks Bj. Björgvinssonar

Fréttasafn Prenta