Frétt

Landsvirkjun býður sveigjanlega heildsölusamninga og birtir heildsöluverð opinberlega

3. febrúar 2006

Hlutdeild Landsvirkjunar í verðmyndun rafmagns er einungis um þriðjungur. Í markaðsvæddu umhverfi raforku er verð á rafmagni samsett úr þáttum framleiðslu, flutnings, dreifingar og smásölu. Miðað við verðlag þessara þátta má gera ráð fyrir því að hlutdeild Landsvirkjunar sé um 35% af verðmyndun á rafmagni á smásölumarkaði, því fyrirtækið er eingöngu framleiðandi.

Meint hækkun á raforku til notenda við markaðsvæðinguna á ekki rætur í sölu raforku frá Landsvirkjun
Verðbreytingar til almennra notenda sem kaupa af rafveitum í smásölu eiga ekki rætur í heildsöluverði frá Landsvirkjun. Þetta sést af því að við skipulagsbreytingar á raforkumarkaði hafa heildartekjur Landsvirkjunar af sölu á raforku til almenningsveitna ekki aukist að raungildi umfram verðlagshækkanir.

Opinbert heildsöluverð er hjá Landsvirkjun en öðrum ekki
Landsvirkjun er eini framleiðandinn sem býður rafmagn í heildsölu til sölufyrirtækja eftir verðskrá sem birt er opinberlega. Frá fyrirtækinu kemur um 70% af því heildsölurafmagni sem selt er áfram í smásölu hér á landi. Aðrir framleiðendur, sem flestir reka eigin sölufyrirtæki hafa kosið að selja eigin framleiðslu sjálfir í gegnum eigin sölufyrirtæki. Hjá öllum samkeppnisaðilum Landsvirkjunar á heildsölumarkaði ríkir verðleynd þannig að ekki er sýnilegt hvernig heildsöluverð annarra fyrirtækja en Landsvirkjunar hefur þróast.

Sveigjanlegir heildsölusamningar
Landsvirkjun býður sölufyrirtækjum 1, 3, 7 og 12 ára heildsölusamninga með miklum sveigjanleika í aflnotkun og auk þess svokallaða grunnorkusamninga, sem er nýjung frá því um síðastliðin áramót. Grunnorkukaup og samningar til lengri tíma þýða hagstæðari innkaup smásalanna. Hver viðskiptavinur ákveður samsetninguna á samningum sem hann gerir við Landsvirkjun eftir almennum reglum þar um. Kaup smásala samkvæmt 7 og 12 ára heildsölusamningum geta samanlagt að hámarki numið 85% af raforkukaupum hans. Missi smásali markaðshlutdeild sem nemur 15% eða meira, getur hann skilað Landsvirkjun rafmagni samkvæmt 7 og 12 ára samningum. Landsvirkjun tekur þannig þátt í markaðsáhættu þeirra orkufyrirtækja sem versla við hana í mun meira mæli en flest fyrirtæki sem selja vöru á heildsölumarkaði.

Misskilningur hjá forstjóra Orkuveitu Húsavíkur
Vegna ummæla sem höfð eru eftir Hreini Hjartarsyni, forstjóra Orkuveitu Húsavíkur, á forsíðu Fréttablaðsins, 2. febrúar, skal bent á að það fyrirtæki er ekki í viðskiptum við Landsvirkjun og viðræður milli þessara aðila um heildsölusamninga hafa ekki farið fram. Fullyrðingar forstjórans um að viðskiptavinir séu þvingaðir til að kaupa samkvæmt langtímasamningum standast ekki. Eins og áður segir eru þar ákveðin hámarksinnkaup leyfileg samkvæmt almennum reglum.

Viðskiptavinir sem samið hefur verið við hafa almennt verið áhugasamir um að nýta sér þau. Þá eru fullyrðingar Hreins um skyldu smásala til að standa við langtímasamninga um kaup af Landsvirkjun óháð því hvort þeir haldi hlutdeild sinni á markaði einnig rangar eins og skýrt er frá hér að ofan. Í þessu samhengi má benda á að þar að auki getur smásali framselt rafmagn sem hann kaupir af Landsvirkjun.

 

Fréttasafn Prenta