Frétt

Rangar upplýsingar um orkuverð á vef Alcoa

8. júní 2006

Þar sem raforkuverð í samningum á milli Landsvirkjunar viðskiptavina er trúnaðarmál er ekki hægt að greina frá verðinu. Grundvallarverðið sem Landsvirkjun og Alcoa sömdu um er hins vegar mun hærra en 15 Bandaríkjadalir fyrir hvert megawatt. Á vefnum kom fram að orkuverð í Brasilíu væri 30 dalir. Ummælin hafa nú verið fjarlægð af vef Alcoa.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að ef álframleiðsla væri hafin á Reyðarfirði myndi orkuverðið til álversins nálgast 30 bandaríkjadali. Raforkuverð í samningum er tengt verði á áli á heimsmarkaði. Sem stendur er álverðið mjög hátt.

Í yfirlýsingu sem Alcoa Fjarðaál sendi frá sér í gær er Landsvirkjun beðin afsökunar. Í yfirlýsingunni segir: „Alcoa Fjarðaál tjáir sig ekki um raforkuverð fyrirtækisins á Íslandi, enda er það trúnaðarmál. Vegna fréttar á heimasíðu Alcoa í Brasilíu, þar sem vitnað er í blaðaviðtal við forstjóra Alcoa frá í fyrra, verður samt að taka fram að þar er um fráleitan og rangan samanburð að ræða. Það voru mistök að birta viðtalið á heimasíðunni og það hefur verið tekið þaðan út. Alcoa Fjarðaál telur ástæðu til að biðja Landsvirkjun afsökunar á þessu leiðindaatviki.“

 

Fréttasafn Prenta