Frétt

Orkuverð til Fjarðaáls

15. júní 2006

Orkuverð til Fjarðaáls, álvers í Reyðarfirði í eigu Alcoa, hefur verið nokkuð í fréttum að undanförnu. Tilefnið var grein í brasilísku blaði þar sem haft var eftir stjórnarformanni Alcoa að orkuverð í Brasilíu væri helmingi hærra en á Íslandi. Fulltrúi Alcoa hefur lýst yfir að sú tala sem birtist um orkuverð til Fjarðaáls sé ekki rétt og að umfjöllun viðkomandi blaðamanns byggist á misskilningi. Við þetta er í sjálfu sér ekki miklu að bæta en ég tel þó sem stjórnarformaður Landsvirkjunar mikilvægt að eftirfarandi efnisatriðum sé haldið til haga: Samningurinn við Alcoa um orku til Fjarðaáls byggist á grunnverði sem síðan er tengt við álverð á markaði á hverjum tíma.

Þegar samningurinn var gerður var álverð á alþjóðamörkuðum lágt sem þýðir að upphafleg tenging við álverð tekur mið af því. Þetta er þess valdandi að verðið hækkar verulega ef álverð verður eitthvað í líkingu við það sem það er í dag þegar orkusala hefst til Fjarðaáls.

Álverð það sem af er þessu ári hefur farið hæst í yfir 3000 $ tonnið. Þetta þýddi orkuverð á bilinu 28-35 $ á hvert selt megawatt í klukkutíma úr Kárahnjúkavirkjun. Til viðmiðunar má nefna að talan sem stjórnarformaður Alcoa nefndi um orkuverð í Brasilíu var 30 $.

Það eina sem er vitað um álverð í apríl á næsta ári þegar orkusala hefst til Fjarðaáls er að það verður ekki það sama og í dag. Það getur þess vegna hafa lækkað verulega. Það verður þó ekki verðið á þeim tíma sem ræður endanlega verðinu til Landsvirkjunar.

Það er til framvirkur markaður fyrir ál til allt að 10 ára. Landsvirkjun hefur nú þegar tryggt sér, með framvirkum samningum á hluta orkunnar, að fyrstu ár orkusölu til Fjarðaáls fæst mun hærra verð en sem nemur því sem reiknað var með í arðsemisútreikningum fyrirtækisins.

Til viðbótar við þetta eru ákveðin teikn á lofti um að arðsemi virkjunarinnar sé í það minnsta ekki minni en gert var ráð fyrir í arðsemisútreikningunum. Þar má nefna eftirfarandi:

Samkvæmt nýjum alþjóðlegum reikningsskilareglum ber Landsvirkjun að greina frá markaðsverði allra sinna eigna í reikningum fyrirtækisins; þar með talið verðmæti orkusölusamninganna. Sama á við um virði framvirkra samninga. Nú er verið að vinna við að meta virði þessara eigna í samvinnu við erlenda sérfræðinga. Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir en ljóst er að miðað við núverandi punktstöðu á álverði skiptir nettó jákvætt virði þessara samninga tugum milljarða umfram reiknað virði þeirra samkvæmt upphafsforsendum.

Í tengslum við sölu Reykjavíkurborgar á eignarhluta borgarinnar í Landsvirkjun til ríkisins komst óháður aðili að þeirri niðurstöðu að virði eiginfjár Landsvirkjunar væri tæpir 60 milljarðar. Reykjavíkurborg hafnaði tilboði ríkisins m.a. á þeim forsendum að þetta væri of lágt verð. Það getur ekki þýtt annað en að sérfræðingar borgarinnar áliti arðsemi eigna Landsvirkjunar meiri en reiknað var með í forsendum fyrirtækisins; en þær forsendur virðast vera nokkuð í takt við það sem hinn óháði aðili notaði.

Að öllu þessu sögðu virðist ekkert benda til annars en að verðforsendur samningsins við Alcoa hafi verið traustar. Lágt álverð á mörkuðum þegar gengið var frá samningum gerði það freistandi að tengja orkuverðið álverðinu og njóta á þann hátt hækkana þegar að þeim kæmi. Í dag bendir flest til að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Að sjálfsögðu var tekið mið af þeim samningum um orkusölu sem vitað var um á þeim tíma. Samkvæmt gögnum sem alþjóðlegar stofnanir taka saman um raforkuverð til álframleiðslu er það verð sem samið var um við Alcoa nokkuð fyrir ofan miðja verðkúrfuna. Miklu hærra en það lægsta verð sem er í gangi en lægra en það hæsta; enda er það á svæðum þar sem orkuframleiðendur hafa aðgang að öðrum mörkuðum og verið er að loka álverum eða þar sem skortur er á raforku. Það hefur enda ítrekað komið fram hjá kaupendum orku til stóriðju á Íslandi að ef orkuverðið eitt réði þá væru þeir ekki að byggja hér. Þar koma fleiri þættir inn svo sem traust stjórnarfar, öflugt vinnuafl og tenging við evrópska markaði.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar.


 

Fréttasafn Prenta