Frétt

Trúnaður um raforkuverð til stóriðju

29. júní 2006

Samningar Landsvirkjunar voru opinberir í upphafi
Þegar Landsvirkjun var stofnuð, árið 1965, var algengt að upplýsingar um orkuverð og jafnvel orkusamninga til álvera væru opinberar.  Það byggðist m.a. á því að seljendur voru gjarnan opinber fyrirtæki í eigu ríkis (Noregur, BPA), fylkja (Quebec) eða sveitarfélaga (Hamborg/HEW).  Skilmálar voru yfirleitt almennir og opinberir enda oftar en ekki stofnað til samninganna vegna iðnvæðingar eða sem liðar í efnahagsaðgerðum t.d. til að bæta atvinnuástand.  Oft fylgdu með beinir styrkir eða ívilnanir af ýmsum toga.  Það var því eðlilegt að orkusamningur Landsvirkjunar við Alusuisse í upphafi væri opinbert gagn enda í lögum settum af Alþingi.

Samkeppni og minni opinber afskipti stuðla að viðskiptaleynd
Eftir því sem fram hafa liðið stundir hefur orðið afstöðubreyting varðandi birtingu upplýsinga af þessu tagi.  Bæði kemur til að markaðsvæðing orkuiðnaðarins hefur leitt til þess að afskipti opinberra aðila af gerð slíkra samninga hafa minnkað og einnig, að jafnvel þar sem opinberir aðilar eiga hlut að máli, hefur af samkeppnisástæðum verið hætt birtingu slíkra upplýsinga umfram það sem kemur fram í ársreikningum fyrirtækja og skýringum með þeim.  Þannig var lengi hægt að fylgjast með meðalorkuverði Landsvirkjunar til stóriðjufyrirtækjanna með því að lesa ársskýrslu Landsvirkjunar vandlega.  Þetta er ekki hægt í dag enda starfar Landsvirkjun í samkeppnisumhverfi og á í harðri samkeppni við tvo orkuframleiðendur (OR og HS) á sama markaði.

Hvorki Orkuveita Reykjavíkur né Hitaveita Suðurnesja hafa birt nokkrar upplýsingar um orkuverð sem þau fyrirtæki hafa samið um við Norðurál eða Alcan á Íslandi.  Með því að birta verð væri Landsvirkjun að upplýsa þessa samkeppnisaðila sína um verð og aðra skilmála sem fyrirtækið kann að semja um.  Það veikir augljóslega stöðu Landsvirkjunar í samkeppninni.

Þess ber að geta einnig að Landsvirkjun hefur lengi átt í harðri samkeppni við aðra orkuframleiðendur á alþjóðlegum markaði, ekki aðeins í áliðnaði heldur einnig ýmsum öðrum orkusæknum iðnaði svo sem járnblendi, magnesíum o.fl.  Eins og fram kemur hér að neðan er nú svo komið að upplýsingar um orkuverð í áliðnaði eru ekki nema í örfáum tilfellum opinberar.  Þeir aðilar sem starfa í þessum iðnaði eins og öðrum líta á orkuverð eins og annan framleiðslukostnað sem mikilvægar trúnaðarupplýsingar sem halda ber leyndum.

Stjórn Landsvirkjunar telur það þjóna hagsmunum fyrirtækisins að gefa ekki upp verð
Framan af og allt til ársins 1995 voru birtar upplýsingar um orkuverð og jafnvel heilir samningar sem Landsvirkjun hafði gert.  Voru þær yfirleitt birtar sem fylgiskjal með frumvörpum til laga sem lögð voru fyrir Alþingi til staðfestingar á Fjárfestingarsamningum eða breytingum á slíkum samningum sem þurftu að fá staðfestingu Alþingis.

Í tengslum við samninga við Alusuisse um stækkun álversins í Straumvík varð hinsvegar breyting á.  Á fundi sínum 7. nóvember 1995 þar sem orkusamningur vegna stækkunarinnar var til afgreiðslu samþykkti stjórn Landsvirkjunar samhljóða eftirfarandi ályktun.:  “Stjórn Landsvirkjunar ályktar að það geti verið til þess fallið að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar að því er varðar samninga um orkusölu til stóriðju, að viðsemjendur fyrirtækisins hafi aðgang að verðákvæðum áður gerðra rafmagnssamninga og samþykkir því að viðskiptaleynd skuli ríkja um orkuverðsákvæði fyrirhugaðs viðaukasamnings við Íslenska álfélagið hf.”.  Þessi sjónarmið hlutu samþykki iðnaðarráðherra og því voru ekki lagðar fram upplýsingar af þessu tagi fyrir Alþingi.  Á hinn bóginn fékk Iðnaðarnefnd Alþingis fullan aðgang að samningunum við meðferð frumvarpsins.

Sami háttur var hafður á við Fjárfestingarsamning við Columbia Ventures Corp. um Norðurál hf.  á árinu 1997.

Samningur Landsvirkjunar við Fjarðaál sf frá 15. mars 2003 hefur að geyma ákvæði um trúnaðarskyldu (confidentiality) sem banna beinlínis upplýsingagjöf um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar án samþykkis hins samningsaðilans.  Er það nýmæli, en gera má ráð fyrir að vegna samkeppnisumhverfis verði slík ákvæði að reglu í samningum í framtíðinni.  Bæði samkomulag Landsvirkjunar við Alcan, sem nú er unnið eftir, og samkomulag við Alcoa um athuganir á Norðurlandi hafa að geyma slík trúnaðarákvæði.

Einungis um 3% raforkusamninga til álframleiðslu í heiminum eru opinberir
- þetta er í samræmi við það sem almennt gerist í viðskiptum
Í tilefni af umræðunni hérlendis að undanförnu var haft samband við tvo ráðgjafa Landsvirkjunar, Brook Hunt og CRU í London, og þeir spurðir um stöðu mála almennt í áliðnaðinum.  Það var samdóma álit beggja að þróunin hafi verið sú að stöðugt fækki þeim orkusamningum þar sem upplýsingar um orkuverð eru gefnar út.  Það sé helst þar sem álver greiði orku samkvæmt almennum opinberum verðskrám  sem slíkar upplýsingar fáist.  Að mati annars ráðgjafans er svo komið að hann telur að slíkar upplýsingar séu einungis fyrirliggjandi um samninga sem nema ca. 3% af heimsframleiðslu áls.

Þess skal að lokum getið að trúnaður ríkir í flestum samningum um viðskipti aðila í hinu almenna viðskiptalífi  í dag, enda geta verð verið mjög mismunandi fyrir sömu vöru eða þjónustu milli aðila þar sem samkeppni ríkir.

Fréttasafn Prenta