Frétt

Dómur um Norðlingaölduveitu

27. júní 2006

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur voru stefndu sýknaðir af kröfum stefnenda um ógildingu annars vegar á úrskurði Skipulagsstofnunar frá 12. ágúst 2002 og hins vegar úrskurði setts umhverfisráðherra, frá 30. janúar 2003, um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Þó var sá hluti úrskurðar setts umhverfisráðherra felldur úr gildi sem heimilar gerð set- og miðlunarlóns norðan og vestan Þjórsárvera og veituskurð í Þjórsárlón án undanfarandi mats á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar.

Landsvirkjun fagnar sýknudómi héraðsdóms Reykjavíkur sem með einni undantekningu staðfestir málsmeðferð stjórnvalda við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu og þar með sjónarmið Landsvirkjunar í málinu. Dómurinn gerir ekki athugasemdir við setlón norðan og vestan Þjórsárvera sem mótvægisaðgerð eins og henni er lýst í úrskurði Skipulagsstofnunar en telur að með því að heimila miðlun vatns yfir í Þjórsárlón hafi settur umhverfisráðherra í raun skipt byggingu Norðlingaöldulóns í tvær framkvæmdir, þ.e.a.s. að miðlunarlón séu tvö í stað eins áður. Vegna þessa hefði borið að framkvæma sérstakt mat á umhverfisáhrifum þessa hluta framkvæmdarinnar.

Landsvirkjun mun á næstunni taka til skoðunar hvort ráðist verður í mat á umhverfisáhrifum þess hluta framkvæmdarinnar sem getið er í því skilyrði í úrskurði sett umhverfisráðherra sem dómur Héraðsdóms Reykjavíkur felldi úr gildi í dag. Samtímis mun fyrirtækið meta hvort dómi héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar.


 

Fréttasafn Prenta