Frétt

Umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar, staðreyndir og ýkjur

11. ágúst 2006

Pétur Ingólfsson
Umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar, staðreyndir og ýkjur

Undanfarin ár hafa staðið harðar deilur um Kárahnjúkavirkjun bæði hérlendis og erlendis.
Í þessum deilum hafa ætluð umhverfisáhrif virkjunarinnar borið mjög á góma. Til að meta hugsanleg umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir og mælingar á síðustu áratugum. Rannsóknir á sumum umhverfisþáttum hófust á áttunda áratug síðustu aldar, en verulegur kraftur var settur á rannsóknirnar og athuganir árið 2000 þegar mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar hófst. Síðan þá hafa ár hvert farið fram umfangsmiklar rannsóknir sem miðast við það að átta sig sem best á ætluðum áhrifum virkjunarinnar áður en rekstur hennar hefst og ákvarða grunnástand vissra umhverfisþátta, sem nota má til samanburðar síðar ef þess verður talin þörf.

Í þessu sambandi langar mig til að fara nokkrum orðum um tvær greinar samdar af mönnum sem hafa látið sig umhverfismál vegna Kárahnjúkavirkjunar miklu skipta. Fyrri greinin birtist í október hefti tímaritsins „World Rivers Review“ árið 2001 og er skrifuð af Árna Finnssyni. Seinni greinin er grein Hjálmars Sveinssonar sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 8. júlí síðastliðinn og hann kallar „Síðasta vorið“. Í báðum þessum greinum er fjallað um hreindýr, heiðagæsir og fossana sem hverfa.

Ýkjur um umhverfisáhrif
Árni fjallar ítarlega um fossana og í undirfyrirsögn greinar hans segir: „Norsk Hydro Dams Would Drown 100 Waterfalls“. Í greininni er síðan hert á og talað um að meira en 100 fossar tveggja til fjörutíu metra hverfi vegna virkjunarinnar. Til að gera þessa fullyrðingu áþreifanlegri er birt tveggja dálka mynd af Dettifoss, sem er í texta undir myndinni réttilega heimfærður í Jökulsá á Fjöllum, en síðan sagt að „This waterfall is one of the up to 100 that would be damned for the Noral aluminium project“. Þegar Árni talar um Norsk Hydro Dams á hann við svokallað Noralverkefni. Hvergi er minnst á virkjun Jökulsár á Fjöllum í þessu samkomulagi. Samkvæmt upplýsingum frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen eru fossar sem hverfa tímabundið eða með öllu færri en 50 talsins. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að í stærstu ánni, Jökulsá á Dal, eru nú engir fossar, svo vandlega hefur áin grafið farveg sinn. Í hinni stóránni, Jökulsá í Fljótsdal, skerðast fossar verulega, en þó verður í meðalvatnsári sama rennsli í ánni og nú er ágúst og september. Að telja Dettifoss með þeim fossum sem hverfi vegna orkuöflunar fyrir álver á Reyðarfirði er áræðin fölsun. Þessi fölsun vakti litla athygli en hefur vafalaust virkað erlendis, ef fólk þekkir ekki vel til staðhátta.

Hreindýrin
Bæði Árni og Hjálmar ræða um hugsanleg áhrif Hálslóns á hreindýr, en hluti þeirra nýtir sér nú gróðurlendið á Vesturöræfum austan Jökulsár á Dal sem burðar- og beitarsvæði í maí og júní. Árni bendir á að 14% beitarsvæða Snæfellshjarðarinnar fari undir Hálslón. Hann telur að áhrif framkvæmdanna á hreindýrin séu óþekkt og fræðimenn telji að áhrifin geti verið hlutfallslega miklu meiri en væntanlegt tap beitarsvæðanna. Því er ljóst að áhyggjur fræðimanna vegna áhrifa framkvæmdanna á hreindýr voru óþarfar og hrakspár þeirra um fækkun stofnsins vegna truflunar á framkvæmdum eru ekki á rökum reistar, því veiðistofn hreindýra fer stækkandi. Eins og Árni ræðir Hjálmar um hreindýrin og telur að á Hálsi og í Kringilsárrana sé helsta burðarsvæði þeirra.

Hreindýr á KárahnjúkasvæðinuLítum nú aðeins nánar á þau áhrif sem Hálslón hefur á hreindýrin: Hálslón skerðir gróðurlendi á Vesturöræfum um 19 ferkm, en þá er miðað við að land teljist gróið ef gróðurþekjan nær 10%. Af þessum 19 ferkm eru 11 ferkm fullgrónir. Gróðurlendi á Vesturöræfum er um 200 ferkílómetrar. Það hefur verið talið að tap þeirra gróðursvæða sem fara undir Hálslón minnki það beitarsvæði sem hreindýrin hafa til ráðstöfunar á Vesturöræfum um 14%. Er þá tekið tillit til þess að það beitarsvæði sem tapast er talið henta hreindýrum betur en önnur beitarsvæði á Vesturöræfum.
Landsvirkjun hefur látið taka myndir úr lofti af Kringilsárrana og Vesturöræfum til talningar á hreindýrum í maí og júní allt frá 1993.

Meðfylgjandi línurit sýnir að fjöldi hreindýra á Hálsi minnkar þegar snjóþungi eykst. Í snjóþyngstu vorum eru innan við 100 dýr á mælingasvæðinu sem er 200 ferkm. Hreindýrin eru að koma inn á svæðið í maí í mismunandi miklum mæli eftir snjóalögum og tíðarfari og fer fjölgandi í júní. Þetta bendir til að Vestur Hálsinn hafi verið ofmetinn sem burðarsvæði, en burður stendur hæst um miðjan maí og er lokið í júníbyrjun. Hins vegar er hann nýttur sem beitarsvæði í júní og júlí fyrir hluta Snæfellshjarðarinnar.

Náttúrustofa Austurlands mun fylgjast með fari hreindýra og ástandi gróðurs á Vesturöræfum eftir að virkjunin tekur til starfa. Landbúnaðarháskólinn hefur stundað umfangsmiklar áburðartilraunir á Hálsi og mun Landsvirkjun grípa inní ef gróðri á Vesturöræfum hrakar. Þá mun Landsvirkjun leitast við að haga framkvæmdum vegna áfoksvarna við Hálslón þannig að þær trufli hreindýrin sem minnst. Hreindýrum mun hugsanlega fækka á þessum slóðum (10 til 15%) vegna missis þess beitarlands sem fer undir Hálslón, ef beitarland á Vesturöræfum er nú fullnýtt. En þau verða áfram í hópum saman á Vesturöræfum. Náttúruunnendur ættu því áfram að geta notið þeirra, þótt þeir þurfi að flytja tjaldstæði sitt þannig að það verði ofan vatnsborðs Hálslóns eða inn á Vesturöræfum ef þeim hentar það betur.

Heiðagæsirnar
Í báðum greinunum er rætt um heiðagæsir. Árni gleðst yfir því að hætt var við virkjunaráform með lóni við Eyjabakka, en við Eyjabakka eru mikilvægar fellistöðvar fyrir heiðagæs. Hjálmar segir í grein sinni: „Mig langaði að sjá hreiður og egg, mig langaði til að sjá þúsund gæsamömmur og þúsund gæsasteggi, mig langaði til að sjá þúsund unga skríða úr þúsund eggjum ...“ Heiðagæsastofninn var um síðustu aldamót 230 þúsund fuglar, en varppör um 30 þúsund. Um 1500 pör verptu á Brúardölum og Vesturöræfum og er áætlað að þriðjungur hafi verpt í væntanlegu lónstæði Hálslóns eða um 500 pör.

Náttúrufræðistofnun mun fylgjast með hversu stór hluti þessara para muni velja sér hreiður ofan lónborðs á fyrsta vori eftir fyllingu Hálslóns, en ekkert verður nú fullyrt um hversu mörg pör velja þann kostinn eða hvaða pör kjósa að verpa fjarri lóninu. Hins vegar vona ég að gæsavarpið við lónið þéttist þannig að Hjálmar muni á fyrsta vorinu geta séð hundruð gæsamömmur og gæsasteggi á bökkum Hálslóns.

Kringilsárrani
Hjálmar ræðir um Kringilsárrana og dýralíf þar. Kringilsárrani er sá hluti friðlands Kringilsárrana sem er vestan Jöklu. Sérstaða Kringilsárrana miðað við önnur gróin svæði umhverfis Hálslón var sú, að einungis var hægt að heimsækja svæðið að sumarlagi af Vatnajökli með því að fara niður Brúarjökul, sem oft er illa sprunginn og ógreiðfær. Í árbók Ferðafélags Íslands 1997, sem fjallar um Norð-Austurland hálendi og eyðibyggðir lýsir höfundur bókarinnar, Hjörleifur Guttormsson, Sauðafelli og Kringilsárrana svo: „Þetta eru afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegra með auðveldari hætti annars staðar, hreindýr við Snæfell og á Vesturöræfum og jökulgarðar vestan við útfall Sauðár eða á Eyjabökkum“.

Nú er öldin önnur og Kringilsárrani kominn í tísku. Vegir sem Landsvirkjun hefur lagt úr byggð inn að Kárahnjúkum og kláfur sem byggður var á Kringilsá gerir það nú auðvelt að komast í Kringilsárrana. Við þá samgöngubót sem kláfurinn er hvarf sérstaða svæðisins, en vafalaust hefur það verið mikil upplifun að vera í hópi þeirra er fyrst fóru um varpsvæði, eftir að aðgangur að því opnaðist um varptímann. Sú upplifun verður væntanlega ekki eins mikilfengleg þegar ferðum manna um svæðið fjölgar og sérstaða sú sem einangrunin gaf svæðinu hverfur. Ekki er ólíklegt að Umhverfisstofnun muni banna umferð um svæðið tímabundið, þegar þeim fjölgar sem trufla fuglana á varptímanum.

KringilsárraniHálslón fer yfir 13 ferkm af landi Kringilsárrana og eru fjórðungur þess gróinn. Stærð Kringilsárrana er um 50 ferkm. Ekki er að fullu ljóst stærð gróins lands í Kringilsárrana, en ætla má að um 15% til 20% þess fari undir Hálslón.

Náttúrufræðistofnun áætlar að af 300 gæsahreiðrum sem eru í Kringilsárrana fari 50 undir Hálslón. Fjöldi hreindýra í Kringilsárrana í maí og júní er mjög breytilegur. Frá því að ekkert hreindýr sé á svæðinu upp í nokkur hundruð dýr. Ef litið er til þess gróðurs sem tapast undir Hálslón í Kringilsárrana og fjölda gæsahreiðra sem fara undir vatn bendir allt til þess að áhrif Hálslóns á dýralíf Kringilsárrana verði ekki slík að dýralífi hnigni þar að neinu marki.


Miklar upplýsingar liggja fyrir
Þegar ég var á ferð í Kringilsárrana í ágúst á síðasta ári og gekk ofan væntanlegs vatnsborðs inn að Hraukum, vakti það athygli mína að gróður á þessum hluta Kringilsárrana er í afturför. Þannig var grasið í töðuhraukunum rótnagað og víða vottaði fyrir uppblæstri. Landsvirkjun leitaði því til Náttúrustofa Austurlands til að meta ástand gróðurs í Kringilsárrana nú í sumar áður en lónið fyllist og fylgjast síðan með framvindu hans á næstu árum. Jafnframt mun Náttúrufræðistofnun telja fjölda gæsahreiðra fyrir og eftir fyllingu Hálslóns.

Hraukar í Kringilsárrana
Í Kringilsárrana. Gróður í Hraukum er víða í afturför.

Nú liggja því fyrir miklar upplýsingar um þá umhverfisþætti sem ætla má að Kárahnjúkavirkjun hafi áhrif á. Þessar upplýsingar er nauðsynlegt að nota þegar rætt er um hugsanleg áhrif virkjunarinnar, einfaldlega til þess að vit verði í umræðunni. Kárahnjúkavirkjun hefur umtalsverð umhverfisáhrif. Það hefur furðað mig að margir þeir sem farið hafa í fylkingarbrjósti andstæðinga virkjunarinnar, hafa talið nauðsynlegt að ýkja tölulegar upplýsingar sem liggja fyrir um umhverfisáhrif virkjunarinnar eða láta sem dýralífi sé spillt langt umfram það sem ætla má af fyrirliggjandi gögnum.

Ég virði fullkomlega skoðanir þeirra og röksemdafærslu en vona að umræðan geti farið fram á hófstilltari hátt.

Höfundur er verkfræðingur hjá Landsvirkjun og hefur haft umsjón með umhverfisrannsóknum vegna Kárahnjúkavirkjunar.


Efni greina sem skrifaðar eru undir nafni
þarf ekki að lýsa skoðunum fyrirtækisins.
Greinarnar eru skrifaðar á ábyrgð höfunda.

Fréttasafn Prenta