Frétt

Samið við TM Software um IP símtækni

15. ágúst 2006

Í verkinu felst meðal annars forritun, uppsetning, prófanir og kennsla á IP símstöðvarnar og símbúnaðinn sem þeim tilheyrir.

IP símtæknin felur í sér að öll samskipti fara fram í gegnum Netið, hvort heldur notaðir eru hefðbundnir borðsímar, farsímar eða tölvur. Það eina sem þarf er nettenging og þá skiptir ekki máli hvort starfsmaðurinn sem ná þarf í er staddur í Kárahnjúkum eða í New York.

Óskar H. Valtýsson, fjarskiptastjóri Landsvirkjunar, segir það mikið framfaraskref fyrir Landsvirkjun að taka IP tæknina í sína þjónustu. „Þetta gerir okkur mun auðveldara að tengja saman starfsstöðvar Landsvirkjunar, auk þess sem símakostnaður mun lækka og sveigjanleiki aukast. Nú er það netið sem er samtengipunkturinn í stað símalína áður,“ segir Óskar.
„TM Software hefur mikla reynslu í innleiðingu, rekstri og þjónustu á síma- og netkerfum og í dag eru margir af viðskiptavinum okkar stærstu fyrirtæki landsins þannig að Landsvirkjun er mjög ánægjuleg viðbót við núverandi viðskiptahóp,“ segir Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri hjá TM Software.

TM software og Landsvirkjun undirrita samning um IP fjarskipti
Þráinn Hauksson, sölustjóri fjarskipta hjá TM Software, Ágúst Einarsson,
framkvæmdastjóri hjá TM Software, Óskar H. Valtýsson, fjarskiptastjóri
Landsvirkjunar og Ásdís Björk Jónsdóttir, innkaupafulltrúi Landsvirkjunar,
við undirritun samningsins.

 

Fréttasafn Prenta