Frétt

Landsvirkjun, Landsnet hf. og Brunavarnir Árnessýslu gera með sér samning

16. ágúst 2006

Samningurinn er gerður til fimm ára og tekur til rekstrarsvæða Landsvirkjunar og Landsnets hf. við Sog og á Þjórsár- og Tungnaársvæði. Í samningnum felst að Brunavarnir Árnessýslu bs. muni standa fyrir staðbundinni fræðslu á sviði bruna- og mengunarvarna. Samningurinn er liður í að auka öryggi á sviði bruna- og mengunarvarna.

Samningurinn hefur haft nokkurn aðdraganda. Í upphafi árs 2001 var skipaður af frumkvæði Landsvirkjunar vinnuhópur sem fjalla átti um brunavarnir á Þjórsár- og Tungnaársvæði. Auk starfsmanna Landsvirkjunar skipuðu starfsópinn slökkviliðsstjóri Brunavarna Rangárvallasýslu bs. og slökkviliðsstjóri Brunavarna Gnúpverja- og Hrunamannahrepps. Hópurinn skilaði af sér tillögum um það sem betur mætti fara í brunavörnum á svæðinu. Meðal annars var lagt til að gerður yrði þjónustu- og samstarfssamningur við yfirvöld brunavarna.

Á undanförnum misserum hefur átt sér stað sameining sveitarfélaga og slökkviliða á Suðurlandi. Í kjölfarið hefur rekstrarsvæði Brunavarna Árnessýslu stækkað og nær það til rekstrarsvæða Landsvirkjunar og Landsnets hf. við Sog, Þjórsá og Tungnaá. Við þetta hefur  slökkvilið svæðisins eflst til muna og var því engin fyrirstaða fyrir Landsnet hf. og Landsvirkjun að gera þennan samning núna.

Undirritun samnings milli Brunavarna Árnessýslu, Landsvirkjunar og Landsnets
Á myndinni eru frá vinstri Lúðvík Ögmundsson, öryggisstjóri Landsnets hf., Einar Njálsson,
formaður Brunavarna Árnessýslu bs. og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar


Fréttasafn Prenta