Frétt

Ávirðingar í skjóli fjölmiðils

22. ágúst 2006

Þeir Steinar Friðgeirsson, formaður og Logi Kristjánsson, framkvæmdastjóri skrifuði yfirlýsinguna fyrir hönd Verkfræðingafélags Ísland. Yfirlýsingin var birt í Morgunblaðinu 18 ágúst sl.. Landsvirkjun finnst ástæða til að birta hana á vef sínum þar sem miklar rangfærslur um Kárahnjúkavirkjun komu fram í viðtalinu við Desiree D. Tullos.

Yfirlýsing Verkfræðingafélags Íslands:

Ávirðingar í skjóli fjölmiðils

Miðvikudaginn 16. ágúst birtist í Morgunblaðinu viðtal blaðamannsins, Silju Bjarkar Huldudóttur við Desiree D. Tullos sem í viðtalinu er titluð vatnsaflsverkfræðingur (river engineer) og prófessor við Oregon State University sem mun reyndar ekki vera réttur titill. Tullos er menntuð sem verkfræðingur á sviði vistfræði áa sem er annað nám og hún er aðstoðarprófessor eða lektor á því sviði við vistfræðideild Oregon State University - en ekki vatnsaflssviði. Doktorspróf hennar er árs gamalt.

Með tilliti til eða kannski vegna reynsluleysis hennar er með ólíkindum hvað hún er reiðubúin að tjá sig um málefni sem hún hefur litla sem enga þekkingu á og hefur að eigin sögn ekki getað aflað sér nema takmarkaðra upplýsinga um. Viðtalið einkennist af sleggjudómum, rangfærslum og vanþekkingu hennar en einnig viðmælanda hennar.

Tveimur atriðum teljum við nauðsynlegt að svara strax:

1. Þessi ungi, bandaríski, verkfræðingur fer með rangt mál þegar hún segir að rannsóknarferlið hafi einungis staðið yfir í eitt ár. Staðreyndin er sú að virkjanarannsóknir norðan Vatnajökuls hófust á sjöunda áratug síðustu aldar.

2. Hún vegur með ófaglegum hætti að íslenskum verkfræðingum með aðdróttunum um ófagleg vinnubrögð. Vísar hún til ábyrgðar verkfræðinga og að í Bandaríkjunum sverji þeir eið sambærilegan við læknaeiðinn og spyr „hvort íslenskir verkfræðingar beri ekki sömu siðferðilegu, starfslegu og fjárhagslegu ábyrgð og starfssystkin þeirra í Bandaríkjunum“.

Því er til að svara að það vill svo til að rannsóknir og hönnun Kárahnjúkastíflunnar hafa bæði verið unnar af erlendum og innlendum verkfræðingum og öðrum sérfræðingum. M.a. hefur bandaríska verkfræðifyrirtækið Harsa og svissneska fyrirtækið Elektro Watt komið að hönnuninni auk Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (VST) og Almennu verkfræðistofunni (AV) sem eru tvær af reyndustu ráðgjafarstofum landsins.

Það er álit forystumanna VFÍ að íslenskir verkfræðingar hafi unnið og vinni af heilindum fyrir fólkið í landinu og að meiri siðferðileg, starfsleg og fjárhagsleg ábyrgð séu vandfundin í þjóðfélaginu.

Menntamálanefnd VFÍ stendur vörð um menntun verkfræðinga og fylgist með verkfræðinámi sem í boði er hér á landi, semur reglur um þær menntunarkröfur, sem krafist er til inngöngu í félagið og til þess að fá að kalla sig verkfræðing.

Siðareglur hafa verið í gildi hjá VFÍ í yfir hálfa öld þar sem segir m.a. að verkfræðingar skuli kosta kapps um að tæknilegar lausnir hæfi einstökum verkefnum og séu einstaklingum og almenningi til heilla. Verkfræðingar skulu í starfi fylgja bestu faglegu vinnubrögðum, virða rétt annarra og sýna umhverfinu fyllstu virðingu.

Þáttur verkfræðinga í uppbyggingu þjóðfélagsins, innviðum þess, atvinnuvegum og nýsköpun á sinn þátt í velgengni þjóðarinnar. Það er því leitt til þess að vita að reynslulítill verkfræðingur frá öðru landi sem búinn er að sverja eið í sínu heimalandi, að eigin sögn, er tilbúinn til þess að vega að starfsheiðri íslenskra verkfræðinga með fullyrðingum og yfirlýsingum sem fá ekki staðist. Ennfremur er leitt til þess að vita að íslenskur fjölmiðill skuli veita sleggjudómum af því tagi sem hér um ræðir það vægi sem Morgunblaðið gerði 16. ágúst sl. Það viðtal er vart við hæfi fjölmiðils sem vill vera vandur að virðingu sinni og hafa það sem sannara reynist. Þannig vinnubrögð má ekki fella undir skjól lýðræðislegrar umræðu sem okkur er svo nauðsynleg - þau skaða hana.

Steinar Friðgeirsson, formaður VFÍ.

Logi Kristjánsson, framkvæmdastjóri VFÍ.

Fréttasafn Prenta