Frétt

Landsvirkjun styrkir viðgerð rannsóknabáts

22. ágúst 2006

Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur, hefur afhent Sjóminjasafni Reykjavíkur bát sinn „Jón á ellefu“ til varðveislu. Báturinn var smíðaður í Danmörku en var sérhannaður til vatnarannsókna.

Pétur M. Jónasson og báturinn Jón á ellefuBróðir Péturs, Jón Örn Jónasson, hannaði og smíðaði bátinn árið 1953 úr þunnum og léttum lerkiviði. Að sögn Péturs var hann svo léttur að tveir menn gátu borið hann á milli sín. Báturinn er 5,5 m að lengd og 1,82 m að breidd.

Að lokinni smíði var báturinn fluttur til Danmerkur, þar sem hann var notaður við rannsóknir í 20 ár. Að þeim tíma loknum var hann fluttur aftur til Íslands árið 1973. Við þá flutninga laskaðist báturinn töluvert. Þar sem viðunandi lerkiviður fékkst ekki var annar efniviður notaður til viðgerðanna. Þær viðgerðir sem nú munu fara fram á bátinum miða að því að koma honum í upprunalegt ástand.

Pétur segir að nafn bátsins, „Jón á ellefu“ hafi jafnframt verið viðurnefni bátasmiðsins Jóns Arnar Jónassonar sem kenndur var við Framnesveg 11.

Það óvenjulega við bátinn er hversu flatbotna hann er og segir Pétur að hann hafi komið að sérstaklega góðum notum sem rannsóknabátur, því í honum rúmaðist mikið af tækjum. 

Pétur segir að lag bátsins hafi hentað sérstaklega vel til þess að taka sýni og mælitæki um borð. Samstarfsmenn Péturs héldu margir hverjir að báturinn myndi taka vatn inn á sig, en það gerðist aldrei.

Pétur ber hag vatnsins mjög fyrir brjósti og segir að þrjár hættur steðji að vatninu. Í fyrsta lagi nefnir hann streymi köfnunarefnis út í vatnið frá umferð. Í öðru lagi nefnir hann köfnunarefni frá sumabrústöðum og í þriðja lagi straum ferðamanna.

Rannsóknir Péturs á Þingvallavatni hafa beinst að öllu lífríki þess, vatninu, efnafræði og dýralífi. Hafa niðurstöður rannsókna hans meðal annars birst í tveimur bókum um vatnið. Rannsóknir hans hafa átt þátt í því að vatnið er nú eitt þriggja vatna í heiminum á heimsminjaskrá UNESCO. Landsvirkjun hefur styrkt rannsóknir Péturs og er það Landsvirkjun ánægjuefni að geta tekið þátt í viðgerð rannsóknabátsins.

 

 

Fréttasafn Prenta