Frétt

Endurskoðað arðsemismat vegna Kárahnjúkavirkjunar

29. ágúst 2006

Til upprifjunar
Samningar við Alcoa Inc. um orkusölu til Fjarðaáls á Reyðarfirði voru undirritaðir 15. mars 2003 en með því var afráðið að ráðist yrði í Kárahnjúkavirkjun. Forsenda samningsins var að arðsemismat virkjunarinnar skilaði ásættanlegri niðurstöðu. Sú var talin raunin en sérfræðingar Landsvirkjunar og ráðgjafar fyrirtækisins komust að þeirri niðurstöðu að afkastavextir virkjunarinnar (”internal rate of return”) yrðu 7,3% sem var 0,4% yfir vegnum fjármagnskostnaði og núvirt sjóðstreymi reiknaðist jákvætt um 6,6 milljarða króna. Þetta þýddi jafnframt að arðsemi eigin fjár reiknaðist vera 12,8% sem var 1,8 prósentustigum yfir eiginfjárkröfu.  Ennfremur fóru fram líkindafræðilegir útreikningar á arðsemi verkefnisins og var niðurstaðan sú að aðeins væru 21-26% líkur á því að afkastavextirnir næðu ekki vegnum fjármagnskostnaði en þegar það gerist reiknast núvirt sjóðstreymi neikvætt. Þá voru líkur taldar hverfandi á að verkefnið skilaði ekki ávöxtun umfram lánsvexti.

Svokölluð eigendanefnd Landsvirkjunar fór að frumkvæði fyrirtækisins yfir arðsemismatið. Niðurstaðan í skýrslu nefndarinnar var m.a. þessi:

Nefndin telur arðsemismat Landsvirkjunar vel rökstutt. Það er hins vegar eigenda fyrirtækisins að ákveða hvort metin arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé fullnægjandi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem felst í verkefninu og annarra þeirra þátta sem þeir telja mikilvæga.

Arðsemismatið var kynnt eigendum á sérstökum fundum og voru ábyrgðir vegna virkjunarinnar veittar á grundvelli þess. Þannig voru ábyrgðir afgreiddar í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akureyrar og arðsemismatið tekið til ítarlegrar umræðu í iðnaðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Endurskoðað arðsemismat
Landsvirkjun hefur nú endurskoðað arðsemismat fyrir virkjunina með tilliti til upplýsinga sem þegar liggja fyrir um áfallinn virkjunarkostnað og endurskoðaðar forsendur um helstu rekstrarliði. Leitast var við að vinna matið með sama hætti og fyrr þannig að unnt væri að bera vænta arðsemi nú saman við það arðsemismat sem lá til grundvallar fjárfestingarákvörðuninni. Aðferðafræði Landsvirkjunar við arðsemismatið er sú sama og almennt er notuð af fyrirtækjum, þ.e.a.s. byggt er á núvirtu fjárstreymi frá verkefninu og eru helstu forsendur þessar:

  1. Stofnkostnaður
  2. Raforkusala
  3. Álverð og þróun þess
  4. Gengi Bandaríkjadals
  5. Rekstrarkostnaður
  6. Líftími virkjunar
  7. Fjármögnun og fjármagnskostnaður

Stofnkostnaður var í upphafi talinn verða um 95 milljarðar kr. án vaxta miðað við verðlag og gengi í nóvember 2002 sem svarar til um 115 milljarða kr. í dag að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og vaxta á byggingatíma.

Nú liggur fyrir nýtt mat á stofnkostnaði. Matið samanstendur af áföllnum kostnaði við virkjunina þann 30. júní sl. að meðtöldum vöxtum á byggingartíma og áætlun um kostnað frá 1. júlí til loka framkvæmda. Samtals nemur ný kostnaðaráætlun liðlega 116 milljörðum kr. að meðtöldum áætluðum kostnaði vegna flutningsvirkja og ófyrirséðum kostnaði vegna þeirra framkvæmda sem eftir eru. Ný áætlun um stofnkostnað Kárahnjúka er því um einum milljarði kr. yfir upprunalegri kostnaðaráætlun og nemur hækkunin innan við 1% þegar um 75% af verkinu er lokið.

Búið er að aðlaga aðrar forsendur að nýjum aðstæðum. Ber þar hæst að talið er að álverð til framtíðar hækki nokkuð frá fyrra mati og gert er ráð fyrir að gengi Bandaríkjadals hafi lækkað frá því sem ráð var fyrir gert.

Niðurstaða
Niðurstaðan úr þeirri endurskoðun sem farið hefur fram á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er að jákvætt núvirði virkjunarinnar sé tæplega 4,4 milljarðar króna. Þetta er um 2,2 milljarða kr. lækkun frá því í upphaflegu arðsemismati. Miðað við þessa niðurstöðu nær Landsvirkjun engu síður að mæta kröfum um vexti á lánsfé og eigendur geta vænst 11,9% arðsemi eigin fjár sem er umfram þá 11% eiginfjárkröfu sem gerð var.

 

Fréttasafn Prenta