Frétt

Aðgengi að skýrslum Landsvirkjunar

12. september 2006

Skýrslur sem gerðar eru á vegum Landsvirkjunar eru almennt aðgengilegar öllum þeim sem vilja fá þær. Þær eru gefnar út með samræmdum hætti og svokallað upplýsingablað fylgir hverri skýrslu. Á því eru fyrirmæli höfunda eða verkefnisstjóra til starfsfólks skjalasafns en það annast dreifingu skýrslnanna. Meðal annars hakar verkefnisstjóri í reiti sem segja til um hvort dreifing viðkomandi skýrslu sé opin eða lokið. Opin dreifing merkir að dreifa megi henni án atbeina verkefnisstjóra t.a.m. á vef fyrirtækisins. Lokuð dreifing merkir að afhenda má skýrsluna með samþykki verkefnisstjóra.

Lokaðar skýrslur
Landsvirkjun vinnur á grundvelli vottaðs gæðakerfis. Í gæðakerfi fyrirtækisins er skýrt kveðið á um meðhöndlun skjala og annarra gagna er verða til í starfseminni þ.á m. skýrslna. Trúnaðargögn fyrirtækisins eru sérstaklega merkt með áberandi hætti til þess að ekki fari milli mála að þau fái meðhöndlun sem slík. Fyrirtækið starfar í samkeppnisumhverfi bæði innanlands og utan. Gögn sem snerta viðskiptavini þess eða eru viðkvæm út frá samkeppnislegum sjónarmiðum geta eðli málsins samkvæmt verið trúnaðarmál. Opinberun slíkra gagna getur skaðað viðskiptavini, fyrirtækið og eigendur þess.

Vegna kostnaðar eru skýrslur oft gefnar út í örfáum eintökum sem byggist meðal annars á mati verkefnisstjóra um lesendahóp viðkomandi skýrslu. Undantekning frá þessu eru skýrslur sem ætlaðar eru almenningi og eru þá stundum afhentar gegn gjaldi.

Það má ljóst vera að það að skýrsla sé merkt „lokuð“ á upplýsingablaði hefur ekkert með trúnað að gera, heldur stýrir því með hvaða hætti viðkomandi gögn eru afhent út fyrir fyrirtækið. Mörg fyrirtæki og stofnanir nota þessa eða sambærilegar aðferðir við dreifingu á sínum skýrslum. Má þar nefna Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun.

Upplýsingar um Kárahnjúkavirkjun
Þess má að lokum geta að Landsvirkjun hefur lagt áherslu á góða miðlun upplýsinga um Kárahnjúkaverkefnið til almennings. Það er hagur fyrirtækisins að almenningur hafi sem besta þekkingu á verkefninu þótt öðru hafi verið haldið fram. Á heimasíðu Landsvirkjunar (http://www.lv.is/) og á síðu Kárahnjúkavirkjunar (http://www.karahnjukar.is) eru margvíslegar upplýsingar um verkefnið og framgang þess ásamt ýmsum rafrænum skýrslum. Rannsóknir á svæði Kárahnjúka hafa staðið yfir allt frá sjöunda áratungum og er umfang skýrslna gríðarlega mikið. Alls hafa verið gefnar út rúmlega 700 skýrslur frá 1970 varðandi Kárahnjúkaverkefnið og eru tæp 40% þeirra vegna rannsókna aðrar eru um hönnun, útboð, fjármál, framkvæmdir og eftirlit.


 

Fréttasafn Prenta