Frétt

Flatarmál Hálslóns tæplega helmingur af flatarmáli Hvalfjarðar

16. október 2006

Skúli Víkingsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), hefur kannað hvar draga má línu yfir Hvalfjörð til þess að afmarka flöt sem er jafn stór Hálslóni. Hann sendi Landsvirkjun niðurstöður sínar og eru þær birtar hér með góðfúslegu leyfi hans.

Ef dregin er lína við ystu mörk Hvalfjarðar, frá Kjalarnesi að Dægurnsoppu undir Akrafjalli, er flatarmál fjarðarins 133 km2. Flatarmál Hálslóns, þegar það hefur náð hámarksstærð sinni, er hins vegar 57 km2. Ef fundinn er staður til að afmarka svæði í Hvalfirði sem jafngildir stærð Hálslóns þarf að fara inn að Hálsnesi norðan Búðasands (vestan við Reynivallaháls) og draga þaðan línu yfir að ósi Kalmansár norðan fjarðarins. Svæðið frá þessari línu inn í botn fjarðarins jafngildir stærð Hálslóns.

Með þessu verða flatarmálin þannig:

Hálslón: 57 km2 
Hvalfjörður: 133 km2
Hvalfjörður innan Reynivallaháls: 56,6 km2

Á myndinni hér að neðan sést flatarmál Hvalfjarðar í samanburði við Hálslón, Blöndulón og Lagarfljót.

 Samanburður á stærð Hálslóns og Hvalfjarðar 

Fréttasafn Prenta