Frétt

Orkukostnaður heimila vegna húshitunar lægstur á Íslandi

20. október 2006

Í Morgunbalðinu 17. október fjallaði Eiríkur Bogason, framkvæmdastjóri Samorku (Samtaka raforku- hita- og vatnsveitna), um orkukostnað heimila á Norðurlöndum. Í greininni kom fram að raforkukostnaður heimila er minnstur á Íslandi, þrátt fyrir mikla noktkun raforkunnar.

Orkukostnaður heimila á Norðurlöndum
Eiríkur Bogason

Á stjórnarfundi Samorku, sem haldinn var á Reyðarfirði í byrjun október var m.a. rætt um samanburð á orkukostnaði heimila á Norðurlöndum. Þar var m.a. lögð fram samantekt þar sem gerður er samanburður á orkukostnaði vegna raforku- og hitaveitu í löndunum fimm, miðað við notkun hér á landi.

Gífurlegur munur er á orkukostnaði heimila á Norðurlöndum. Eins og sést á meðfylgjandi mynd er orkukostnaður íslenskra heimila, þegar notast er við hitaveitu til upphitunar, innan við þriðjungur af kostnaði vegna sambærilegrar notkunar í Danmörku.

Kostnaður vegna upphitunar heimila með raforku er mun hærri en sambærileg notkun þar sem hitaveitu nýtur. Þó er það svo að rafhitunarkostnaður er mun lægri hér og einungis fjórðungur af sambærilegum kostnaði í Danmörku og tveir þriðju hlutar af kostnaði norskra heimila.

Raforkunotkun heimila í löndunum fimm er nokkuð svipuð, þó með þeirri undantekningu að mun meiri orka fer í upphitun híbýla hér á landi. En þrátt fyrir meiri notkun er kostnaður heimila á Íslandi mun minni en hjá þessum frændþjóðum okkar. Þessi árangur hefur náðst vegna hagkvæmrar nýtingar endurnýjanlegra orkulinda okkar, fallvatna og jarðvarma. Ísland er stórt og strjálbýlt land og því er flutningur raforku til allra byggðra bóla ákaflega kostnaðarsamur. Það er m.a. þess vegna sem það vekur athygli að þessi liður heimilisútgjalda skuli hafa vinninginn í samanburði við milljónasamfélögin í nágrenni okkar.

Samanburður á orkukostnaði heimila á Norðurlöndum

Fréttasafn Prenta