Frétt

Landsvirkjun styrkir leiksýningu innflytjenda

26. október 2006

Rauði þráðurinn er fjölþjóðlegur leikhópur, skipaður leikurum frá ýmsum heimshornum sem allir starfa í Reykjavík. Samsetning leikhópsins endurspeglar því starfsemi og aðstæður fjölmargra fyrirtækja á Íslandi í dag.

Leikverkið „Best í heimi“ byggir á viðtölum við fólk um innflytjendur og málefni þeirra á Íslandi. Þetta fólk hefur haft ótrúlegar sögur að segja sem spanna allt frá sprenghlægilegum gamansögum um misskilning manna á milli, yfir í hádramatískar sögur um daglegt líf og aðstæður fólks.

Með auknum fjölda innflytjenda á Íslandi er ljóst að umfjöllunarefni sýningarinnar tengist okkur öllum með einum eða öðrum hætti. Leiklistin felur í sér einstakan miðil til þess að draga fram myndir af raunverulegum viðburðum og opna þannig fyrir almenna og lifandi umræðu. „Best í heimi“ dregur upp ferska mynd af innflytjendum, málefnum þeirra og samskiptum við Íslendinga. Verkið er bráðskemmtilegur spéspegill á íslenskt samfélag og hvetur okkur til ánægjulegra samskipta. Sýningin fer fram á íslensku en verður jafnframt textuð á ensku.

Með styrkveitingunni vill Landsvirkjun leggja sitt af mörkum til opinnar og jákvæðrar umræðu um málefni innflytjenda á Íslandi.

„Best í heimi“ verður frumsýnt í Iðnó þann 28. október næstkomandi.

Rauði þráðurinn og Landsvirkjun undirrita samning

Á myndinni undirrita María Reyndal, leikstjóri, og forsvarskona leikhópsins Rauði þráðurinn, og Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar samninginn.

 

Fréttasafn Prenta