Frétt

Reykjavík og Akureyri selja ríkinu sinn hlut í Landsvirkjun

2. nóvember 2006

Í gær var gefin út svofelld fréttatilkynning:

„Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík og Kristján Þ. Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri rituðu í dag undir samning um kaup íslenska ríkisins á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.

Reykjavíkurborg og Akureyrarbær eiga samanlagt 50% í fyrirtækinu, þar af nemur eignarhluti Reykjavíkurborgar 44,525% og eignarhluti Akureyrarbæjar 5,475%. Kaupverð eignarhlutanna nemur samtals 30,25 milljörðum króna og verða 3,4 milljarðar króna greiddir við gildistöku samningsins hinn 1. janúar nk.

Eftirstöðvar kaupverðsins verða greiddar með skuldabréfum til 28 ára og renna greiðslurnar til lífeyrissjóða sveitarfélaganna, þ.e. Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar, til að mæta lífeyris¬skuldbindingum vegna starfsmanna þeirra.

Samningurinn er með fyrirvara um samþykki Alþingis, borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar.“

Samningurinn byggir á viljayfirlýsingu, sem gerð var 17. febrúar 2005. Samningurinn verður lagður fyrir borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akureyrar á næstunni og ríkisstjórnin mun innan tíðar leggja fram frumvarp um málið á Alþingi. Stefnt er að því að það verði afgreitt fyrir áramót. Framtíðarstaða fyrirtækisins mun því skýrast á næstu vikum.

 

Fréttasafn Prenta