Frétt

Af hverju hætti Norsk Hydro við álver í Reyðarfirði?

15. desember 2006

Nokkuð hefur borið á því í umræðunni að virkjunarandstæðingar hafi haldið því fram að Norsk Hydro hafi hætt við álver í Reyðarfirði vegna efasemda um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Af svipuðum toga eru þau orð Árna Finnssonar í grein í Morgunblaðinu nýlega að staðreyndin sé sú að Norsk Hydro hafi ekki séð sér fært að taka þátt í Kárahnjúkaverkefninu vegna þess að það hefði skaðað ímynd fyrirtækisins.

Bjarne Reinholdt starfsmaður Norsk Hydro á Íslandi, tekur af allan vafa um ástæður þess að Norsk Hydro hætti við álversbyggingu á Reyðarfirði í pistli í Fréttablaðinu og sýnir svo ekki verður um villst að getgátur virkjunarandstæðinga eru staðlausar. Bjarne segir:

„Frá því að við opnuðum skrifstofu okkar í Reykjavík í haust hef ég orðið var við að enn eru uppi ranghugmyndir um ástæður þess að Hydro dró sig út úr Reyðarálsverkefninu á Reyðarfirði árið 2002. Helsti misskilningurinn er kannski sá að Hydro hafi verið mótfallið virkjuninni við Kárahnjúka sem Landsvirkjun ætlaði að reisa og Hydro hafi hafnað þátttöku í verkefninu vegna mögulegrar neikvæðrar umræðu um raforkuverið. Þetta er rangt. [...] Það er hins vegar niðurstaða okkar, eftir að hafa vegið og metið fyrirliggjandi gögn, þ.á.m. hið ítrarlega umhverfismat sem íslenskir sérfræðingar unnu, að virkjunin sem nú er verið að reisa með miðlunarlóni við Kárahnjúka væri ásættanlegur kostur. Helsta ástæða þess að Hydro hætti vð þátttöku í Reyðarálsverkefninu var sú að fyrirtækið stóð á þeim tíma andspænis tveimur umfangsmiklum fjárfestingarverkefnum á sviði áliðnaðar og hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að framkvæma þau samtímis.“

 

Fréttasafn Prenta