Frétt

Vinnuslys við framkvæmdir Kárahnjúkavirkjunar

15. desember 2006

Undanfarnar vikur hefur átt sér stað fjölgun vinnuslysa hjá ítalska verktakanum Impregilo sem annast framkvæmdir við tvo stærstu verkþætti virkjunarinnar, byggingu Kárahnjúkastíflu og gerð aðrennslisganga.

Á fundi sínum í morgun lýsti stjórn Landsvirkjunar áhyggjum sínum af þessari þróun og fól forstjóra fyrirtækisins að beina því til verktaka og eftirlitsaðila að tryggja að farið verði í einu og öllu eftir þeim reglum og kröfum sem gerðar eru til öryggis á vinnustað.

Ráðgjafahópurinn VIJV undir forystu breska fyrirtækisins Mott McDonald hefur eftirlit með framkvæmdum á svæðinu fyrir hönd Landsvirkjunar. Landsvirkjun og VIJV hafa þegar farið ítarlega yfir öryggismál og öryggiseftirlit með yfirmönnum verktakans. Aðgerðir við öryggiseftirlit og öryggisfræðslu starfsmanna hafa verið efldar. Áhersla er einkum lögð á að auka öryggisvitund verkstjóra og starfsmannanna sjálfra.

Impregilo hefur þegar tilkynnt um aðgerðir svo sem frekari öryggisnámskeið fyrir verkstjóra, fjölgun öryggisvarða, skyndiskoðanir á ástandi öryggismála á verkstöðum, dreifibréf um öryggismál til allra starfsmanna, kerfi viðurkenninga vegna árangurs í öryggismálum, fjölgun öryggisæfinga, öryggisfundi á verkstöðum og fleira.

Skipan öryggismála er þannig háttað að verktakarnir sjálfir bera ábyrgð á öryggi starfsmanna sinna, setja upp öryggiskerfi og reglur, gera áhættumat og halda uppi eigin öryggiseftirliti samkvæmt lögum, reglum og alþjóðlegum stöðlum eins og verksamningar gera ráð fyrir. Framkvæmdaeftirlitinu (VIJV) ber að sjá til þess að öryggi hjá verktökunum sé fylgt eftir. Jafnframt eru tilnefndir öryggisfulltrúar frá verkalýðsfélögunum sem starfa með framkvæmdaeftirlitinu. Vinnueftirlit ríkisins hefur yfirumsjón með því af hálfu stjórnvalda að öryggisreglum sé framfylgt.

Öryggismálin eru sífellt til umfjöllunar hjá öllum þeim sem koma að byggingu Kárahnjúkavirkjunar, m.a. á reglulegum öryggisráðsfundum auk þess sem fjallað er um öryggismál á öllum verkfundum verktaka og eftirlits. Allir starfsmenn Impregilo fara á öryggisnámskeið við upphaf starfa sinna og fá í hendur öryggishandbók en þær eru gefnar eru út á fimm tungumálum og eru sérstaklega sniðnar að þessari framkvæmd.

Kárahnjúkavirkjun er mjög flókin verkframkvæmd og aðstæður víða erfiðar, sérstaklega á hálendinu að vetrarlagi og við hina gríðarlega umfangsmiklu jarðgangagerð. Landsvirkjun hefur alltaf lagt áherslu á að öryggismál séu í góðu lagi og gerir þá kröfu til verktaka og framkvæmdaeftirlits að því sé fylgt eftir.

 

Fréttasafn Prenta