Frétt

Landsvirkjun stenst ISO 9001 gæðavottun

9. maí 2006

Árið 2002 var upphafið markað að þeirri gæðastjórnun sem Landsvirkjun hefur nú innleitt og verið vottuð samkvæmt ÍST EN ISO 9001:2000 staðlinum.

Ákveðið var að gæðastjórnun Landsvirkjunar yrði byggð á þessum staðli ásamt ÍST EN ISO 14000:2004 og einnig er áætlað að OHSAS 18001 verði það öryggisstjórnunarkerfi sem fylgt verður. Undir gæðastjórnun falla einnig rafmagnsöryggismál og hefur skjalsett kerfi verið notað í nokkur ár samkvæmt kröfum Neytendastofu um rafmagnsöryggisstjórnun rafveitna. Upplýsingaöryggismál munu fylgja ÍST ISO/IEC 17799:2000.

Eftir að breytt raforkulög tóku gildi árið 2005 hefur gæðastjórnun hlotið meira vægi í starfsemi Landsvirkjunar. Nú er framleiðsla raforku frjáls og því er samkeppni á markaði með raforku orðin að veruleika. Þetta hefur leitt til þess að þeir þættir sem tengjast viðskiptavinum og markaði eru mjög mikilvægir í virkni gæðastjórnunar.

Vottun gæðakerfis Landsvirkjunar mun veita fyrirtækinu forskot á raforkumarkaði þar sem ferlar sem tengjast viðhaldi, áreiðanleika, afhendingu og rekstri aflstöðva, liggja til grundvallar í vottaðri framleiðslu raforkunnar. Vottun á gæðakerfi Landsvirkjunar varð að veruleika 23. janúar 2006 og stefnt er að því að í lok ársins verði vottun komin á umhverfisstjórnun Landsvirkjunar.


 

Fréttasafn Prenta