Frétt

Njóta orkufyrirtækin og stóriðjan forgjafar?

27. desember 2006

Hafnaraðstaða
Sagt er að stóriðjan fái sérstakar hafnir fyrir sig og njóti þess vegna sérstakra fríðinda. Staðreyndin er sú að hafnirnar eru byggðar af hafnarsjóðum eða hafnarsamböndum. Tekin eru vörugjöld af stóriðjufyrirtækjunum þannig að hafnarsjóðirnir eða hafnarsamböndin hafa fengið hafnirnar greiddar fljótt og vel og hagnast á öllu saman. Stóriðjufyrirtækin hafa forgang á notkun hafnanna en aðrir hafa einnig að þeim aðgang. Takmarkaður aðgangur er að höfninni í Straumsvík enda höfnin greidd beint af Alcan á Íslandi. Gasfélagið hefur þó haft þar uppskipunaraðstöðu um langt skeið.

Fasteigna- og aðflutningsgjöld
Sagt er að stóriðjan greiði ekki fasteignagjöld eins og önnur fyrirtæki. Á Reyðarfirði samdi Fjarðaál um að greiða sveitarfélaginu 1,0% í fasteignagjöld, en fasteignagjöld af atvinnufyrirtækjum voru áður 1,65%. Fasteignagjöld voru lækkuð á öll fyrirtæki í Fjarðabyggð þannig að samkeppnishæfni staðarins batnaði stórkostlega með tilkomu fyrirtækisins. Hafnarfjarðarbær fær nú hlutdeild í framleiðslugjaldi Alcan en þegar Alcan fer yfir í íslenska skattkerfið, eins og fyrirtækið hefur óskað, mun það greiða fasteignagjöld eins og hvert annað fyrirtæki í Hafnarfirði. Norðurál og Íslenska járnblendifélagið greiða 0,75% fasteignagjald, sem er samningsbundin ákvörðun sveitarfélagsins. Aðflutningsgjöld á vélbúnaði eru óveruleg og eru felld niður þegar um framleiðslu til útflutnings er að ræða jafnt í þessari grein sem og öðrum.

Tekjuskattur og framleiðslugjald
Sagt er að samið hafi verið um skattprósentuna í stóriðjusamningunum. Staðreyndin er sú fyrirtækin greiða nema Alcan tekjuskatt samkvæmt íslenskum lögum en það þekkist að skattprósentan hafi verið fest (nú í 18% í tekjuskatti) til þess að tryggja að tekjuskattur verði ekki hækkaður í bráð. Ástæðan fyrir þessu er augljóslega sú að fyrirtækin geta ekki á augabragði flutt starfsemi sína úr landi enda er fjárfestingin upp á hundruð milljarða króna. Allt öðru máli gegnir um þá starfsemi sem getur skipt um heimilisfang án þess að taka með sér sérhæfðar fasteignir.
Því er stundum haldið fram að Alcan njóti sérstakra skattfríðinda. Þetta er rangt a.m.k. nú vegna þess að Alcan hefur óskað eftir því að komast inn í íslenska skattkerfið. Framleiðslugjald fyrirtækisins er óhagstæðara fyrir reksturinn heldur en ef það væri í íslenska skattkerfinu (tekjuskattur og fasteignagjöld). Óheimilt er að veita Alcan ríkisstyrki og ívilnanir frá skattalögum þegar aðalsamningur þess við ríkið rennur út árið 2014, þar sem fyrirtækið er ekki á hinu skilgreinda byggðasvæði ESA.

Sagt er að raforkufyrirtækin íslensku njóti sérstakra skattfríðinda. Staðreyndin er sú að það á ekki við lengur. Raforkufyrirtækin falla undir almenn skattalög og greiða skatta samkvæmt þeim. Reyndar er það svo að stærstu fyrirtækin í raforkuiðnaðinum, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, eru sameignarfélög og borga þess vegna í hærra gjaldflokki en hlutafélög, eða 26% en ekki 18%.

Stimpilgjald og önnur gjöld
Sérstaklega hefur verið samið um byggingarleyfisgjald og skipulagsgjald (fasta upphæð hverju sinni) enda um stórar byggingar að ræða. Sérstaklega hefur einnig verið samið um gatnagerðargjald (venjulega fellt niður) enda sjá stóriðjufyrirtækin sjálf um allar vegaframkvæmdir, lagnir, frárennsli o.fl., sem sveitarfélög sjá annars venjulega um. Af hálfu ríkisins hefur verið veitt sérstök lækkun stimpilgjalds af skjölum er tengjast framkvæmdinni (innlendum skuldaskjölum, hlutabréfum félaganna og þinglýsingarskjölum). Samið hefur verið um 0,15% stimpilgjald (undanþága veitt með lögum) en það getur mest orðið 1,5% af skuldabréfum. Með því hefur verið talið að samkeppnisstaða innlendra lánastofnana væri betur tryggð við lánsfjármögnun slíkra stórverkefna því að af lánum sem tekin eru erlendis er auðvitað ekki greitt stimpilgjald á Íslandi. Þá hafa verið felld niður ýmis gjöld eins og iðnaðargjald og markaðsgjald, sem ekki eru stórvægilegir gjaldaliðir.

Ríkisstyrkir og opinberar ábyrgðir
Þess ber að geta að ESA fylgist mjög náið með öllum stóriðjusamningum, jafnt samningum sem opinberir aðilar gera við stóriðjufyrirtækin og raforkusamningum sem gerðir eru á milli raforkufyrirtækjanna og stóriðjufyrirtækjanna. Komi fram athugasemdir t.d. vegna þess að talið sé að um ríkisstyrki sé að ræða gerir ESA vitanlega athugasemdir. Við umfjöllun ESA um stóriðjusamninga Alcoa-Fjarðaáls sf. voru lagðir fram sundurliðaðir útreikningar um styrk ríkisins til verkefnisins samningstímann (20 ár) vegna þeirrar framkvæmdar. Upphæðin var talin nema 24,4 milljónum USD á því tímabili og er þá allt talið. Sú aðstoð var talin nema 2,13% af fjárfestingarkostnaðinum (eligible investment cost) en skv. byggðareglum ESA hefði sú aðstoð mátt nema allt að 17%. ESA gerði ekki athugasemdir við stuðning ríkisins við verkefnið. Ekki má gleyma því að ríkið hefur í gegnum tíðina styrkt atvinnulíf á landsbyggðinni með sértækum aðgerðum.

Greitt fyrir afnot af landi
Því er haldið fram að ríkisábyrgðir á lánum raforkufyrirtækjanna (og eigendaábyrgðir) geri það að verkum að um eins konar niðurgreiðslu á lánum sé að ræða. Þetta er að sjálfsögðu rangt. Eigendur fyrirtækjanna eins og t.d. eigendur Landsvirkjunar hafa kosið að hafa eigendaábyrgð á fyrirtækinu í stað þess að leggja fyrirtækinu til verulegt nýtt eigið fjármagn. Ekki er hægt að sýna fram á að lánskjör hækkuðu umtalsvert við afnám þessara ábyrgða ef fyrirtækið væri með eðlilegt eiginfjárhlutfall. Eigendur Landsvirkjunar eiga þá kosti að leggja fyrirtækinu til verulega fjármuni eða að veita ábyrgð á lánum fyritækisins. Í framtíðinni kemur til greina að fá nýja eigendur að fyrirtækinu til þess að hækka eiginfjárhlutfallið.

Því er haldið fram að virkjunaraðilar þurfi ekki að greiða fyrir afnot á landi vegna starfsemi sinnar. Þetta er alrangt. Orkuvinnslufyrirtækin þurfa að greiða fyrir afnot á landi eða kaupa það land, sem þau nýta. Þegar vatnsfall er virkjað þarf að greiða eigendum fyrir vatnsréttindin og að auki bætur fyrir þann skaða sem virkjanir valda á hagsmunum annarra, t.d. veiðiréttarhafa.

Friðrik Sophusson

Fréttasafn Prenta