Frétt

Trúnaður um raforkuverð

27. desember 2006

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins kallar hinn 17. desember sl. eftir umræðu um raforkuverð til erlendra álfyrirtækja. Tilefnið er sú ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar að framlengja samningaviðræður við Alcan um stækkun álversins í Straumsvík og samþykkja samkomulag um að Alcan beri stóran hluta undirbúningskostnaðar vegna virkjana í Neðri-Þjórsá. Þessar ákvarðanir byggjast m.a. á raforkuverði, sem er trúnaðarmál. Gert er ráð fyrir að raforkusamningur verði lagður fyrir stjórnir fyrirtækjanna á fyrri hluta næsta árs.

Eðlilegt er að kallað sé eftir skýringum á því hvers vegna ekki tíðkast að upplýsa um verð í samningum íslenskra raforkufyrirtækja og þeirra álfyrirtækja, sem hér starfa. Raforkufyrirtækin eru undantekningarlaust í eigu opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga. Af hverju fær almenningur ekki upplýsingar um raforkuverð opinberra fyrirtækja? Hvers vegna hvílir viðskiptaleynd á síkum samningum?

Samþykkt stjórnar Landsvirkjunar frá árinu 1995
Fyrstu samningar Landsvirkjunar vegna rafmagnssölu til ISAL og Íslenska járnblendifélagsins voru gerðir á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma hafði Landsvirkjun í raun sérleyfi til að byggja stærri virkjanir og ekki var viðskiptaleynd á rafmagnsverði til stóriðju enda þurfti samþykki Alþingis fyrir samningum við stóriðjufyrirtæki. Við útreikning á hagkvæmni rafmagnssamninga til stóriðju var miðað við að stóriðjan greiddi svokallaðan flýtingarkostnað vegna viðkomandi virkjunarframkvæmda. Þannig var tryggt að almenningur þyrfti ekki að greiða hærra rafmagnsverð en ella. Á síðasta áratug síðustu aldar breyttist innlendi raforkumarkaðurinn og aðrir raforkuframleiðendur juku framleiðslu sína og hófu rafmagnssölu til stóriðju. Jafnframt varð samkeppnin við erlenda aðila um rafmagnssölu til stóriðjufyrirtækja æ ljósari. Þetta hafði í för með sér að ekki þótti rétt af samkeppnisástæðum að opinbera verð í nýjum rafmagnssamningum við stóriðju og samþykkti stjórn Landsvirkjunar einróma á stjórnarfundi 7. nóvember 1995 eftirfarandi ályktun:

"Stjórn Landsvirkjunar ályktar að það geti verið til þess fallið að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar að því er varðar samninga um orkusölu til stóriðju að viðsemjendur fyrirtækisins hafi aðgang að verðákvæðum áður gerðra rafmagnssamninga og samþykkir því að viðskiptaleynd skuli ríkja um orkuverðsákvæði fyrirhugaðs viðaukasamnings við Íslenska álfélagið hf."

Allir stjórnarmenn, hvar í flokki sem þeir stóðu, greiddu tillögunni atkvæði. Þannig var talið að það þjónaði best hagsmunum Landsvirkjunar að trúnaður ríkti um orkuverð. Minna má á að á skömmum tíma eftir þessa samþykkt gekk Landsvirkjun frá samningi bæði vegna stækkunar Járnblendifélagsins og til Norðuráls. Ljóst er að trúnaður um rafmagnsverð var lykilatriði fyrir samningsstöðu Landsvirkjunar á þeim tíma.

Frá þessum tíma hafa raforkusamningar til stóriðju verið trúnaðarmál. Eigendur Landsvirkjunar hafa að sjálfsögðu verið upplýstir um verð og forsendur. Þannig hafa ríkisstjórn, borgarstjórn og bæjarstjórn Akureyrar fengið upplýsingarnar ásamt iðnaðarnefnd Alþingis. Áður en raforkusamningurinn við Alcoa vegna Fjarðaáls var undirritaður var þar að auki skipuð sameiginleg nefnd eigenda til að kanna allar forsendur málsins og meta arðsemi verkefnisins með sjálfstæðum hætti. Sú meginbreyting hefur orðið að ekki er lengur litið til flýtingarkostnaðar heldur er sérhvert verkefni metið eitt og sér m.a. vegna breytts skipulags raforkumála. Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hefur verið metin og endurmetin og niðurstöðurnar úr því mati hafa verið birtar opinberlega. Slíkar upplýsingar eru í raun mikilvægari fyrir almenning til að kanna hvort vel sé haldið á opinberum eignum en sjálft rafmagnsverðið.

Samkomulagið við Alcan á Íslandi
Í aðdraganda samkomulagsins við Alcan fór fram samkeppni milli Alcan og Century um það við hvorn yrði samið, þar sem hvor um sig lagði fram verðramma. Samkomulag um raforkuverð til Alcan hefur nú verið áritað af samninganefndum beggja aðila, en það var forsenda þeirra tillagna, sem lágu fyrir stjórnarfundi Landsvirkjunar í síðustu viku. Endanlegir samningar liggja ekki fyrir, en þegar það verður er eðlilegt að greina frá arðsemi verkefnisins til að almenningur sjái hverju það skilar.

Í yfirstandandi viðræðum hefur komið skýrt fram af hálfu Alcan að orkuverð til álvera sé trúnaðarmál hvar sem er í heiminum nema þegar samningar byggjast á opinberri gjaldskrá. Þess vegna krefst Alcan fulls trúnaðar um rafmagnsverð og einnig um verðtengd ákvæði í samningi nema lög bjóði annað. Alcan lítur á orkuverð sem lykilupplýsingar í viðskiptum og þeir vilja ekki deila þeim með keppinautum sínum. Sömu sjónarmið gilda í samningum Alcan og Orkuveitu Reykjavíkur, en þau fyrirtæki gerðu í maí sl. samning um kaup Alcan á 40% þess rafmagns sem þarf til fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík.

Fram hefur komið í fréttum að Álfheiður Ingadóttir hafi vikið af fundi Landsvirkjunar þar sem hún vildi ekki taka þátt í afgreiðslu samkomulags um kostnaðarskiptingu við undirbúning virkjananna í Neðri-Þjórsá á grundvelli trúnaðarupplýsinga. Flokksbróðir Álfheiðar, Tryggvi Friðjónsson, tók hins vegar þátt í afgreiðslu samnings milli Orkuveitu Reykjavíkur og Alcan á grundvelli samsvarandi trúnaðarupplýsinga. Trúnaður um raforkuverð í samningum orku- og álfyrirtækja byggist á viðskiptahagsmunum beggja aðila og þau sjónarmið hafa verið virt. Rétt er að ítreka að Landsvirkjun hefur greint frá arðsemi slíkra samninga og gagnast það almenningi best til að meta hvernig á málum er haldið.

Raforkufyrirtæki á samkeppnismarkaði
Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting í rekstrarumhverfi raforkufyrirtækjanna. Orkufyrirtækin starfa í samkeppnisumhverfi og nú gera þau raforkusamning við íslensk fyrirtæki sem kaupa mikla orku. Slíkir samningar eru oft gerðir á grundvelli útboðs og er verð ekki gefið upp. Það er almenn regla, þar sem samkeppni ríkir, að gefa ekki upp verð milli birgja og smásala. Þegar um einokunarstarfsemi er að ræða gilda verðskrár. Þannig eru í gildi verðskrár hjá Landsneti fyrir flutning á rafmagni – einnig rafmagni til stóriðju.

Hér er í raun komið að kjarna málsins. Það er ekki gerlegt í samkeppnisumhverfi að opinbera allt verð. Bónus gefur að sjálfsögðu ekki upp verð frá birgjum vegna viðskiptahagsmuna. Vandi raforkufyrirtækjanna er sá að þau eru í eigu opinberra aðila og þess vegna eru gerðar meiri kröfur um gagnsæi í rekstri þeirra. En þau starfa einnig í samkeppnisumhverfi þar sem óheimilt er að hafa samráð um verð til neytenda og upplýsingar um verð milli fyrirtækja eru ekki gefnar. Hvenær sem er getur einkafyrirtæki haslað sér völl í raforkuvinnslu og smásölu á rafmagni. Slíku fyrirtæki verður ekki skylt að gefa upp verð án lagafyrirmæla.

Þessu til viðbótar þarf að hafa í huga að raforkuverð í samningum við álverin er ekki eitt fast verð. Í flestum tilvikum breytist verðið, þegar álverð breytist á heimsmarkaði, en það sveiflast mikið frá einum tíma til annars. Tekjurnar eru einnig háðar gengi Bandaríkjadals á hverjum tíma. Væntanleg arðsemi verkefnanna gefur meiri upplýsingar um gæði raforkusamninganna en verð sem tekur sífelldum breytingum.

Arðsemin skiptir mestu máli
Að undanförnu hafa ýmsir bent á þann vanda sem steðjar að opinberum raforkufyrirtækjum sem starfa á samkeppnismarkaði. Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði leiðara þar sem hann telur að illa fari á því að raforkufyrirtæki í eigu opinberra aðila leyni almenning umsömdu raforkuverði. Illugi Gunnarsson, stjórnarmaður í Landsvirkjun, telur að einkavæðing sé í raun eina lausnin á þessu vandamáli. Segja má að sérfræðingar OECD séu sömu skoðunar og reyndar ganga þeir enn lengra. Í útdrætti úr Efnahagsskýrslu OECD um Ísland, sem út kom sl. sumar, segir: "Opna ætti orkugeirann fyrir útlendingum og opinberi geirinn ætti að draga sig út úr raforkuframleiðslu með það að markmiði að auka gagnsæi og samkeppni. Þar með væri jafnræði aukið og dregið yrði úr áhættu skattgreiðandans af orkufjárfestingum.

Það er ekki hlutverk greinarhöfundar að taka afstöðu til þess hvort einkavæða eigi þau raforkufyrirtæki sem starfa á samkeppnismarkaði. Það er hlutverk stjórnmálamanna. Við sem stýrum þessum fyrirtækjum verðum hins vegar að upplýsa almenning um gildi raforkusamninga án þess að brjóta eðlilegan viðskiptatrúnað.

Eins og sést á framangreindu er það ekki einfalt mál að opinbera raforkuverð í raforkusamningum milli fyrirtækja. Slíkt jafngildir því að nýlegar breytingar á raforkulögum verði teknar aftur. Þess vegna skiptir máli að raforkufyrirtækin geri opinberlega grein fyrir arðsemi verkefnanna og beri hana saman við arðsemiskröfur hliðstæðra verkefna innanlands sem utan. Þannig fær almenningur þær upplýsingar sem mestu máli skipta fyrir eigendur.

Friðrik Sophusson

Fréttasafn Prenta