Frétt

Umhverfislistaverk við Vatnsfellsvirkjun

1. desember 2003
Gerð listaverks við Vatnsfellsstöð

Starfsmenn Landgræðslunnar og Túnþökuvinnslunnar flytja gróðurtorfurnar og koma þeim fyrir (Mynd: Landgræðslan)

Í Gjörningaklúbbnum eru þrjár listakonur, Eyrún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir. Þær tóku þátt í samkeppni Landsvirkjunar um listaverk við virkjunina.

Verkið nefnist ,,Móðir jörð" og er gróðurvin á hrjóstugum tanga við Vatnsfellsvirkjun svo vitnað sé til listakvennanna sjálfra. Í tillögum Gjörningaklúbbsins átti að vera heiðagróður og listakonurnar sáu m.a. fyrir sér burnirót í verkinu. Þótt lítil reynsla sé af flutningi heiðagróðurs var ákveðið að prófa að nota gróðurtorfur í listaverkið sem undirstöðu.

Nú er uppsetningu á grunnverkinu lokið en síðan munu listakonurnar móta það áfram á næstu árum auk þess sem ljóst er að verkið geti eðli málsins samkvæmt breyst með árunum.

Landgræðslan fékk Guðmund Þ. Jónsson, sem rekur fyrirtækið Túnþökuvinnsluna ehf. í lið með sér. Hann hefur 30 ára reynslu af túnþökuvinnslu og fyrir tíu árum fór hann að skera ,,náttúruþökur" til að gera við röskuð svæði. Guðmundur stjórnaði verkinu og auk Halldórs Magnússonar starfsmanns hjá honum lögðu þeir Bjarni Arnþórsson og Ragnar Skúlason starfsmenn Landgræðslunnar, hönd á plóginn.

Fróðlegt verður að sjá hvernig verkið kemur undan vetri og hvernig það þróast á næstu árum.

Fréttasafn Prenta