Frétt

Virkjanir í Neðri-Þjórsá, formlegar viðræður Landsvirkjunar og landeigenda hafnar

18. janúar 2007

Óformlegir fundir við landeigendur hafa staðið yfir allt síðasta ár. Á þeim fundum hefur einkum verið fjallað um þær mótvægisaðgerðir sem hægt er að grípa til vegna lands sem fer undir vatn og hlunninda sem ábúendur kunna að missa við framkvæmdirnar. Á árunum 2000-2002 var verkið rækilega kynnt fyrir landeigendum og var þá greint frá því samningaferli sem nú er hafið. Einnig hafa fjölmargir kynningarfundir verið haldnir með sveitarstjórnum, almenningi og hagsmunaaðilum.

Fyrsti formlegi samningafundurinn var haldinn í síðustu viku með ábúanda í Akbraut. Gera má ráð fyrir því að samningaviðræður við landeigendur muni standa yfir allt þetta ár. Helsta atvinnugrein á áhrifasvæði virkjana við Neðri Þjórsá er landbúnaður. Við undirbúning virkjana í Neðri Þjórsá hefur það verið markmið Landsvirkjunar að möguleikar til að stunda landbúnað verði ekki skertir á þeim jörðum þar sem áhrifa virkjunarinnar gætir.

Áhrif á jarðir er nokkuð misjöfn en víða má lágmarka áhrifin með mótvægisaðgerðum og leggur Landsvirkjun áherslu á að vinna að undirbúningi þeirra í náinni samvinnu við landeigendur. Auk landbúnaðar er einnig stunduð nokkur ferðaþjónusta á áhrifasvæði nýrra virkjana, áhrif virkjana á ferðaþjónustu eru talin lítil og reyndar nokkrir möguleikar á aukinni ferðaþjónustu samhliða byggingu og rekstri virkjana á svæðinu.

Tenging:
Nánari upplýsingar um nýjar virkjanir í Þjórsá >>

 

Fréttasafn Prenta