Frétt

Landsvirkjun og Steingrímur Eyfjörð í samstarf vegna þátttöku í Feneyjatvíæringnum

29. janúar 2007

Stefnt er að því að verk Steingríms verði sýnt í sýningarsal Landsvirkjunar í Ljósafossstöð við Sogið sumarið 2008.

Myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, sem haldinn verður í sumar.  Verkið sem Steingrímur sýnir þar heitir „Lóan er komin“. Verkið er byggt á viðtölum við um 20 einstaklinga um margvíslega menn og málefni, þ.á m. Benedikt Gröndal, trú á álfa og huldufólk, skák og ýmsa aðra þætti íslenskrar menningar. Viðtölin eru hugsuð sem hráefni sem Steingrímur vinnur úr á fjölbreyttan hátt og eru uppspretta 14 annarra verka sem hvert samanstendur af nokkrum einingum, samanlagt um 50 teikningar, skúlptúrar, ljósmyndir og önnur verk. Viðtölin sjálf verða handbundin í bækur með teikningum og tilvísunum í vinnuferlið.

Nánar um Steingrím Eyfjörð og verk hans
Í verki Steingríms er kafað djúpt í menningararfleifð Íslendinga og nútímalega tjáningu hennar, um leið og sú tjáning er endurskoðuð og sett í annað og margræðara samhengi en oftast er raunin. Í grein Elenu Filipovic, listfræðings, í sýningarskrá sem gefin var út í tilefni sýningar Steingríms í Listasafni Íslands í vor, segir m.a.: „Erfitt getur reynst að greina nákvæmlega þær upplýsingar, frásagnir eða smáatriði sem kunna að verða kveikja að verki vegna þess að það ræðst algerlega af því hvaða undarlegu atviki eða staðreyndabroti hugur listamannsins hefur haldið eftir úr upplýsinga- og fréttaflóðinu sem skellur á okkur daglega.  Athygli hans beinist í ýmsar áttir, að textum, atburðum og fyrirbærum [...]. Upp úr þessum atriðum spretta listaverk sem fela í sér rannsókn á þjóðareinkenni [...], á mannlegri hegðun [...] og á hlutverki myndhverfinga og fegrunar í tengslum við kynjamun. Þótt upprunalegar heimildir eða yfirfærsla þeirra í listaverk kunni að sýnast afar ólíkar tengjast þær í könnun Steingríms á sammannlegri undirvitund okkar, alþýðlegum goðsögnum og mannkynssögunni.“

Steingrímur Eyfjörð hefur um árabil verið einn af athyglisverðustu og virkustu myndlistarmönnum á Íslandi. Hann á að baki yfir 35 einkasýningar og ótal samsýningar, á Íslandi og erlendis. Í maí síðastliðnum opnaði yfirlitssýning á verkum Steingríms í Listasafni Íslands.

Steingrímur Eyfjörð og Friðrik Sophusson

Steingrímur Eyfjörð og Friðrik Sophusson að lokinni undirritun samningsins.

Fréttasafn Prenta