Frétt

Fylling Hálslóns hafin

2. október 2006

Fyrstu klukkustundirnar reis vatnsborð lónsins hratt enda gljúfrin þröng á þessum slóðum. Gert var ráð fyrir að vatnsborðið hækkaði um tvo tugi metra á fyrstu fjórum klukkutímunum.

Þegar lokum var skotið fyrir hjáveitugöngin reyndist rennsli  Jöklu vera í meðallagi miðað við árstíma, um 150 rúmmetrar á sekúndu. Það var mun meira í síðustu viku og ákveðið var að ekki yrði ,,skrúfað fyrir" fyrr en skaplegt vatn væri í ánni til að vatnsborðið hækkaði ekki of hratt á meðan berggrunnurinn mettaðist. Aðstæður voru því orðnar ákjósanlegar og öllum tilheyrandi undirbúningi var lokið á tilsettum tíma.

Fjöldi fólks fylgdist með af austurbakka Hafrahvammagljúfra, gegnt hjáveitugöngunum, og spenna var líka veruleg á Jökuldal að fylgjast með breytingum þar þegar einungis um 10% vatnsins rynnu um árfarveginn nokkrum klukkustundum eftir að lokum hefði verið rennt fyrir við Fremri-Kárahnjúk.

Starfsmenn Impregilo dældu nokkrum bílförmum af steypu niður í hjáveitugöngin, innan við lokurnar, til að styðja við lokubúnaðinn og þétta hann. Sömuleiðis var grjóti sturtað niður í ána, framan við lokurnar sem aldrei verða hreyfðar meir. Hjáveitugöngunum verður að lokum lokað tryggilega með því að steypa í þau 20 metra þykkan tappa í miðjum göngunum. Að því verki loknu teljast göngin vera tryggilega lokuð.

Fjallað er ítarlega um lokun hjáveituganganna og framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun á vef Kárahnjúkavirkjunar.

 Lokur látnar síga fyrir hjáveitugöng

Lokur látnar síga fyrir munna hjáveituganganna

 

Fréttasafn Prenta