Frétt

Samningur við íslensk/pólska vináttufélagið undirritaður

18. september 2006

Með samningnum milli vináttufélagsins og Landsvirkjunar leggur Landsvirkjun til fjármuni sem gera mögulegt að fá til landsins pólska látbragðsleikarann Ireneusz Krosny, sem er heimsfrægur fyrir list sína.  Hann heldur sýningar dagana 29. og 30. september og 1. október nk. í Þjóðleikhúsinu en það er hluti af pólskri menningarhátíð sem haldin verður dagana 28. september til 1. október nú í haust.

Landsvirkjun hefur á undanförnum misserum lagt áherslu á jákvætt framlag til fjölmenningar á Íslandi.  Fyrirtækið gerði samstarfssamning við Alþjóðahúsið í upphafi árs og studdi þar með þjóðahátíð Alþjóðahússins.  Landsvirkjun setti upp sýninguna „Perspekti – Ísland í augum innflytjenda“ í Ljósafossstöð í sumar þar sem gaf að líta list innflytjenda.  Þá munu starfsmenn Alþjóðahúss halda námskeið fyrir starfsmenn Landsvirkjunar í haust í menningarfærni.

Aðstandendur menningarhátíðarinnar lýsa henni með eftirfarandi hætti: „Hér verður um að ræða stærstu kynningu á pólskri menningu sem farið hefur fram á Íslandi. Í byrjun tíunda áratugarins fluttu margir Pólverjar til Íslands í leit að betur launuðum störfum. Nú eru þeir langstærsti hópur innflytjenda. Flestir þeirra eru dreifðir um landið í fiskvinnslu, byggingariðnaði og öðrum störfum þar sem lítillar sérmenntunar er krafist. Hátíðinni er ætlað að kynna menningarlegan bakgrunn þessa hóps. Von okkar er að Íslendingar muni sjá Pólland og sögu þess í nýju ljósi. Við teljum menningarleg samskipti vera best til þess fallin að auka skilning og virðingu milli þjóða.

Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að ná til sem flestra. Því munu koma fram heimsfrægir pólskir listamenn. Þar má nefna Krzysztof Penderecki, sem stjórna mun Sinfóníuhljómsveit Íslands, bókmenntakvöld með Olgu Tokarczuk, sýningar pólskra kvikmynda, ljósmyndasýningu Chris Niedenthals og málstofu um Pólland auk tónleika sem haldnir verða til heiðurs Szymon Kuran tónlistarmanni sem lést á síðastliðnu ári.

Helstu hvatamenn að hátíðinni eru Anna Wojtynska og Marta Macuga og hafa þær unnið ötullega að því í samvinnu við Vináttufélag Íslendinga og Pólverja að menningarhátíðin verður nú að veruleika eftir tveggja ára undirbúning. Það hefur tekist með hjálp og velvilja ýmissa stofnana og fyrirtækja m.a. Landsvirkjunar.


Samningur um pólska menningarhátíð undirritaður
Þorsteinn Hilmarsson, Anna Wojtynska og Marta Macuga
við undirritun samningsins

 

Fréttasafn Prenta