Frétt

Raforkuframleiðsla Landsvirkjunar umhverfisvottuð samkvæmt ISO 14001 staðlinum

31. janúar 2007

Orkusvið Landsvirkjunar er áttundi íslenski aðilinn sem hlýtur umhverfisvottun samkvæmt ISO 14001 staðlinum.

Fyrirtæki með ISO 14001 vottun hefur farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur. Fyrirtækið setur sér markmið um hvernig megi draga úr mikilvægum umhverfisáhrifum starfseminnar. Í ISO 14001 staðlinum eru kröfur um að markmiðum sé náð og að sífelldar úrbætur eigi sér stað. Fyrirtækið gerir enn fremur framkvæmdaráætlun til þess að stýra og draga úr umhverfisáhrifum. Það þarf að þekkja vel hvaða lög og reglugerðir á sviði umhverfismála gilda um starfsemi þess.

Við undirbúning vottunarinnar voru meðal annars skilgreindir þýðingarmiklir umhverfisþættir og umhverfisstefna fyrirtækisins endurskoðuð. Farið var ítarlega yfir þau vinnuferli sem tengjast notkun spilliefna í raforkuframleiðslunni. Komið hefur verið á vinnulagi til þess að skrá frávik og athugasemdir auk þess sem unnið er að stöðugum úrbótum á meðferð spilliefna. Starfsmenn halda utan um upplýsingar um allan úrgang sem frá starfseminni fer og hafa sett sér markmið um að draga úr magni úrgangs sem fer til urðunar.

ISO 14001 vottunarskírteini afhent

Það var Sigurður Harðarson frá Vottun sem afhenti Bjarna Bjarnasyni framkvæmdastjóra orkusviðs Landsvirkjunar skírteinið við hátíðlega athöfn að viðstöddum stórum hópi starfsmanna Landsvirkjunar.

 

Fréttasafn Prenta