Frétt

Námsstyrkir Landsvirkjunar 2007 afhentir

30. mars 2007

Styrkirnir eru að upphæð 400 til 700 þúsund króna hver. Styrkþegar eru: Deanne Katherine Bird , Eyjólfur Magnússon, Kristín Jónsdóttir, Margrét Edda Ragnarsdóttir, Narfi Þorsteinn Snorrason, Ólafur Ögmundsson og Sigurður Hafsteinn Markússon. Námsstyrkir Landsvirkjunar eru nú veittir fjórða árið í röð. Alls bárust 45 styrkumsóknir.

Markmið Landsvirkjunar með námsstyrkjunum er að efla menntun og hvetja til rannsókna á hinum margvíslegu sviðum sem tengjast starfsemi fyrirtækisins. Landsvirkjun vill með þessu framtaki leggja traustan grunn að framtíðinni.

Afhending námsstyrkja árið 2007

Á myndinni sem tekin að lokinni afhendingu styrkjanna eru frá vinstri: Guðrún Narfadóttir f.h. Narfa Þorsteins Snorrasonar styrkþega, Sigurður Hafsteinn Markússon styrkþegi, Petrína Eyjólfsdóttir f.h. Eyjólfs Magnússonar styrkþega, Halla Bergsdóttir f.h. Margrétar Eddu Ragnarsdóttur styrkþega, Ingibjörg Júlíusdóttir f.h. Kristínar Jónsdóttur styrkþega, Ólafur Ögmundarson styrkþegi og Guðrún Gísladóttir f. h. Deanne Katherine Bird styrkþega.

Í úthlutunarnefnd sátu dr. Geir A. Gunnlaugsson, verkfræðingur, dr. Haukur Ingi Jónasson, guðfræðingur, Bjarni Pálsson, verkfræðingur hjá Landsvirkjun, Hugrún Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun og Hulda Pjetursdóttir, yfirmaður lánamála Landsvirkjunar.
Eftirfarandi er stutt lýsing á styrkþegum og verkefnum þeirra:

Deanne Katherine Bird er fædd árið 1974. Hún lauk B.Sc. námi í umhverfisvísindum frá Macquarie University í Ástralíu árið 2005 og stundar nú doktorsnám í eðlisrænni landfræði, með áherslu á náttúruvá, við Macquarie University og Háskóla Íslands.
Doktorsverkefni Deanne heitir „Public perception of natural hazards in Iceland“. Markmið verkefnisins er kortleggja skilning almennings á þeirri náttúruvá sem stafað getur af jökulhlaupum frá Mýrdalsjökli. Í kjölfar verkefnisins verða lagðar fram tillögur til Almannavarna ríkisins um hvernig auka megi þekkingu og skilning almennings á jökulhlaupum og hvernig staðið skuli að viðbúnaði við slíkri náttúruvá.

Eyjólfur Magnússon er fæddur árið 1976. Hann lauk M.Sc. námi í jarðeðlisfræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 2003 og stundar nú doktorsnám í jöklafræði við háskólann í Innsbruck í Austurríki.
Doktorsverkefni Eyjólfs heitir „Fjarkönnun á hreyfingu og vatnafræði Vatnajökuls“. Megin markmið verkefnisins er að kanna hraðasvið skriðjökla Vatnajökuls og áhrif vatnafars við jökulbotn á skrið þeirra. Rannsóknin miðar að því að ákvarða betur hlutfall botnskriðs í heildarhreyfingu jöklanna og hvort búast megi við breytingum á því hlutfalli á næstu áratugum. Við gerð langtíma líkana af þróun jökla á Íslandi er botnskrið jökla sú breyta sem hvað minnst er vitað um.
Rannsóknirnar gætu nýst Landsvirkjun í að bæta líkön um þróun jökla og spár um hve lengi jöklar munu nýtast sem forðabúr fyrir vatnsaflsvirkjanir.

Kristín Jónsdóttir er fædd árið 1973. Hún lauk B.Sc. prófi í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 1999. Kristín stundar nú doktorsnám í jarðeðlisfræði við Uppsala háskóla í Svíþjóð.
Doktorsverkefni Kristínar heitir „Skjálftavirkni, hraðalíkan og upptakagreining jarðskjálfta í hinni jökulhuldu Kötlu eldstöð“. Markmið verkefnisins er að rannsaka jarðskjálfta og jarðskjálftavirkni hinnar virku eldstöðvar Kötlu, undir Mýrdalsjökli og þá sérstaklega áhrif vatnsflæðis á eldfjallið og öfugt. Niðurstöður verkefnisins munu auka almenna þekkingu á virkni Kötlueldstöðvarinnar og samspili hennar við jökulinn og þess er vænst að hægt verði að spá betur fyrir um eldvirknina.

Margrét Edda Ragnarsdóttir fæddist árið 1979. Hún lauk B.Sc. prófi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og stundar nú meistaranám í raforkuverkfræði við Northeastern University í Boston, í Bandaríkjunum.
Meistaraverkefni Margrétar heitir „Aukin spennugæði í raforkukerfum“. Markmið verkefnisins er að sýna fram á nákvæmari leið til að auka spennugæði í raforkukerfum sem innihalda ólínulegt álag, en það er algengt hjá stórum iðnfyrirtækjum eins og álbræðslum. Niðurstöður verkefnisins gætu nýst til að minnka töp í raforkukerfinu og þar að leiðandi minnkað framleiðsluþörf í virkjunum. Sú umframorka sem fengist væri hægt að nýta sem varaafl eða selja til annarra viðskiptavina.

Narfi Þorsteinn Snorrason er fæddur árið 1982. Hann lauk B.Sc. prófi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og stundar nú meistaranám við Danmarks Tekniske Universitet, DTU í Danmörku.
Meistaraverkefni Narfa heitir „Energy Storage – Technologies and Perspectives“. Verkefnið fjallar um umbreytingu á raforku yfir í önnur orkuform sem hægt er að geyma t.d. efnaorku og stöðuorku. Markmið verkefnisins er að auka áreiðanleika og hagkvæmni í raforkukerfum sem byggjast að hluta til eða að miklu leyti á endurnýjanlegum orkuauðlindum eins og vatnsafli, vindi og jarðvarma. Með orkugeymslu væri hægt að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa á heimsvísu og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Ólafur Ögmundsson fæddist árið 1976. Hann lauk B.A. prófi í þýsku frá Háskóla Íslands árið 2002 og stundar nú meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Meistaraverkefni Ólafs heitir „Mat á umhverfisáhrifum – breytt leið til betri framtíðar“. Markmið verkefnisins er að finna leiðir til að auka gegnsæi ferils mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, einkum með tilliti til þess að auka þátttöku almennings í matsferlinu. Þess er vænst að niðurstöður verkefnisins muni í framtíðinni leiða til þess að betri sátt geti orðið um ferli mats á umhverfisáhrifum.

Sigurður Hafsteinn Markússon fæddist árið 1980. Hann lauk B.Sc. námi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og stundar nú nám til meistaraprófs í jarðefnafræði við sama skóla.
Meistaraverkefni Sigurðar heitir „Yfirborðsummyndun og ummyndunarferli á virkum jarðhitasvæðum á Íslandi“. Megin markmið verkefnisins eru að afla upplýsinga um gerð, fjölbreytileika og umfang ummyndunar á virkum jarðhitasvæðum, afla gagna um efnasamsetningu og gerð jarðhitavökvans á yfirborði jarðhitasvæðanna og skilgreina þau ferli sem stjórna gerð ummyndunarinnar. Niðurstöður verkefnisins munu auka þekkingu á yfirborði jarðhitasvæða og auðvelda samanburð á verndargildi einstakra jarðhitasvæða.

Fréttasafn Prenta