Frétt

Fulltrúar Landsvirkjunar hitta Alan Greenspan

21. mars 2007

Ráðstefnan bar yfirskriftina "Annual Global Markets Symposium" og er eins og nafnið segir til um árleg ráðstefna um það helsta sem er að gerast á fjármálamörkuðunum. Um 400 manns sátu ráðstefnuna að þessu sinni og var hún mjög yfirgripsmikil.

Hápunkturinn var sameiginlegur kvöldverður og spjall aðalhagfræðings JP Morgans við gest kvöldsins, en þar var mættur enginn annar en mógull fjármálamarkaðanna, Alan Greenspan fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Þó hann sé formlega hættur störfum þá er hann hvergi nærri búinn að draga sig í hlé og starfar hann nú sem ráðgjafi auk þess að vera eftirsóttur fyrirlesari á viðburðum sem þessum. Hann hefur enn gríðarleg áhrif sem sást t.d. best á því að nokkrum dögum fyrir ráðstefnuma kom töluverð hreyfing á fjármálamarkaði vegna orða hans um ástand efnahagsmála í Bandaríkjunum. Hlutabréfavísitala Dow Jones féll t.d. um 3.3% sem er mesta lækkun á einum degi síðan 9/11! Fyrir spjallið þetta kvöld sagðist hann til gamans ætla að tala varlegar en líka reynslunni ríkari um sinn eigin áhrifamátt. Það sem hann sagði á ráðstefnunni var þó strax komið í New York Times næsta dag.

Okkar menn voru svo heppnir að hitta Greenspan rétt fyrir spjallið og var eftirfarandi mynd tekin við það tækifæri. Ekki vannst tími til að ræða við meistarann og verður það að bíða betri tíma. Ljóst er að Greenspan hefur engu gleymt og það eru fáir sem geta skákað honum þegar umræður um efnahagsmál og horfur á fjármálamörkuðunum ber á góma. Það er hreint með ólíkindum hvað hann er enn vel að sér, kominn á níræðisaldur.

Fulltrúar Landsvirkjunar hittu Alan Greenspan

Á myndinni eru frá vinstri, Kristján Gunnarsson, Ármann Jónsson, Alan Greenspan og ónefndur austurrískur bankamaður.

Fréttasafn Prenta