Frétt

Vatns- og landsréttindi við Búrfell tryggð

21. mars 2007

Með tilvísun í lögin um þjóðlendur lýsir forsætisráðherra því yfir að með eignarhluta ríkisins í LV hafi við stofnun LV verið greitt fullt verð fyrir þau vatns- og landsréttindi sem LV hagnýtir í Búrfellsvirkjun, en þau réttindi séu færð sem eign í efnahagsreikningi fyrirtækisins. Samhliða þessari yfirlýsingu tók forsætisráðherra aftur stjórnarfrumvarp sem lá fyrir Alþingi um sama efni.

Forsaga málsins er sú að Títanfélagið keypti á sínum tíma vatnsréttindi í Þjórsá af bændum, sem töldu sig eiga þau réttindi. Síðar eignaðist íslenska ríkið Títanfélagið og þar með þessi réttindi. Við stofnun LV árið 1965 lagði ríkið vatnsréttindin við Búrfell inn í LV sem stofnframlag ásamt öðrum eignum. Á móti lagði Reykjavíkurborg, sem átti 50% í LV í upphafi, eignir sem stofnframlag borgarinnar. Framlög stofnenda hafa ávallt verið færð sem eign í efnahagsreikningi fyrirtækisins.

Þegar óbyggðanefnd úrskurðaði, að umrædd vatns- og landsréttindi við ofanverða Þjórsá væru þjóðlendur og hefðu aldrei verið í eigu bænda, lofaði ríkið að tryggja skaðleysi fyrirtækisins. Það hefur nú verið gert með yfirlýsingu forsætisráðherra, þar sem skýrt kemur fram að Landsvirkjun hafi að fullu greitt fyrir vatns- og landsréttindi, sem fyrirtækið hagnýti í Búrfellsvirkjun.

Friðrik Sophusson

 

Yfirlýsing Forsætisráðherra um vatnsrettindi í Þjórsá

 

Fréttasafn Prenta