Frétt

Aðalfundur Landsvirkjunar

26. apríl 2007

Á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var síðdegis í dag, voru eftirfarandi kjörnir stjórnarmenn í fyrirtækinu:

Páll Magnússon, bæjarritari Kópavogs
Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur á Akureyri
Valur Valsson, fyrrv. bankastjóri
Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri í Hveragerði
Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst

Á aðalfundinum var samþykkt að Landsvirkjun greiði 500 milljónir í arð til eiganda síns, íslenska ríkisins.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson sem verið hefur stjórnarmaður í Landsvirkjun í 12 ár og þar af 10 ár sem stjórnarformaður gekk nú úr stjórn fyrirtækisins.

Í tilefni af þessum tímamótum sagði Jóhannes Geir eftirfarandi:

„Ég hef setið í stjórn Landsvirkjunar í tólf ár, þar af tíu ár sem formaður. Þetta er því orðinn nokkuð langur en jafnframt viðburðaríkur tími. Ég gat reyndar hugsað mér að sitja í stjórninni eitt ár í viðbót, en nú liggur fyrir að svo verður ekki. Ég hafði með öðrum orðum áhuga á að fylgja Kárahnjúkaverkefninu eftir fram yfir gangsetningu virkjunarinnar síðar á þessu ári. Ástæðan er sú að þetta verkefni hefur augljósa sérstöðu meðal alls þess sem til kasta stjórnar og stjórnarformanns Landsvirkjunar hefur komið undanafarin ár, enda Kárahnjúkavirkjun vissulega umtöluð og umdeild. Ég er hins vegar eindregið þeirrar skoðunar að virkjunin, og það sem henni fylgir, eigi eftir að sanna sig sem eitt mesta heillasporið í framkvæmda- og atvinnusögu Íslendinga í seinni tíð. Tíminn hjá Landsvirkjun hefur verið frábær. Ég hef reynt eftir föngum að standa vörð um hagsmuni fyrirtækisins og starfsfólks þess í því mikla ölduróti sem vissulega hefur oft verið fyrir stafni. Ég færi meðstjórnarmönnum mínum í gegnum tíðina þakkir fyrir gifturíkt samstarf, svo og starfsmönnum öllum fyrir viðkynningu og samskipti, og óska þeim gæfu og gengis í störfum sínum í framtíðinni.“

Á fundi hinnar nýju stjórnar í kjölfar aðalfundar var Páll Magnússon kjörinn stjórnarformaður og Valur Valsson varaformaður.

Við það tækifæri þakkaði Páll fráfarandi stjórnarformanni góð störf í þágu fyrirtækisins og óskaði honum velfarnaðar í framtíðinni. Þá kvaðst Páll fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni og fá tækifæri til að taka þátt í frekari uppbygginu Landsvirkjunar með öðrum stjórnarmönnum og starfsmönnum fyrirtækisins.

Ársskýrsla Landsvirkjunar 2006

 

Fréttasafn Prenta